Þróunarverkefnið „Sérðu mig“
Skólárið 2024-2025 fékk leikskólinn styrk frá Sprotasjóði til að vinna að þróunarverkefninu “Sérðu mig”. Markmið verkefnisins var að efla þekkingu og fagvitund starfsfólks á mikilvægi leiksins og hvernig hægt er að stuðla að aukinni inngildingu, umburðarlyndi og fjölbreytileika meðal allra barna í gegnum frjálsan leik. Leikur er ekki aðeins skemmtun – heldur er hann kjarninn í námi barna og grundvöllur þroska þeirra. Í gegnum leik þróast meðal annars félagsfærni, tilfinningastjórn, sköpunargleði, lausnamiðuð hugsun og sjálfstæði. Því er mikilvægt að starfsfólk þekki fjölbreyttar leiðir til að styðja við leik barna og geti greint hvenær og hvernig á að grípa inn í. Hvernig hjálpa á börnum að komast inn í leik, mynda vinatengsl, taka þátt í leik og líta á fjölbreytileika sem styrkleika. Gæðastarf felst í leik sem námsleið, virku starfsfólki, hlýju, öryggi og því að hlusta á börnin.
Verkefnið hafði þrjú meginmarkmið. Í fyrsta lagi að skapa sameiginlega sýn sem byggir undir viðmið í starfi skólans. Í öðru lagi að þróa matskvarða sem styðja starfsfólk við að meta eigið hlutverk í leik barna með tilliti til inngildingar, umburðarlyndis og fjölbreytileika. Í þriðja lagi að efla meðvitund starfsfólks um mikilvægi hlutverks síns í leik barna og stuðla að markvissari og ígrunduðum inngripum.
Stuðst var við Brok (2015) líkanið til að greina og velta fyrir sér þróun leikskins og námsumhverfi í daglegu leikskólastarfi. Líkanið var þróað sem verkfæri fyrir starfsfólk til að nýta sér til að rýna í leikinn þar sem áhersla er á sjónarhorn barnanna. Allir þættir innan líkansins skipta máli varðandi þátttöku starfsfólks og námstækifæri barna.
Í lok verkefnisins lýstu starfsmenn auknu innsæi í leik barna, meiri öryggi og skýrari sýn á eigið hlutverk. Þeir áttuðu sig betur á því að sum börn þurfa meiri stuðning, aðgengi að efnivið skiptir máli og að hlutverk kennara í leik eru mörg og fjölbreytt. Útbúnir voru gátlistar sem styðja við mat á leikfærni barna og eru notaðir reglulega á deildarfundum. Einnig var settur upp Padlet-veggur með fræðsluefni og hagnýtum ráðum fyrir núverandi og nýtt starfsfólk.