OK Barnamenningarhátíð

OK Barnamenningarhátíð í Borgarbyggð er dagana 5.-11. maí og margt skemmtilegt í boði. Á hátíðinni er allri menningu barna fagnað, menningu með börnum og menningu fyrir börn. Sett var upp listasýning í Geirabakaríi þar sem verk eftir leikskólabörn í Borgarbyggð hanga í gluggunum og hvetjum við ykkur til að líta á hana.

Þriðjudaginn 6. maí buðum við gestum og gangandi að koma í garðinn til okkar á milli klukkan 15-16 og skoða listasýningu sem börnin settu upp. Við þökkum þeim sem mættu kærlega fyrir komuna og gaman að sjá hvað börnin voru áhugasöm og stolt af verkunum sýnum.

Föstudaginn 9. maí buðu elstu deildir leikskólanna í Borgarbyggð (árgangar 2019 og 2020)  foreldrum og öðrum gestum að koma í Hjálmaklett klukkan 14:00-14.40. Þar sungu þau  lög og texta Braga Valdimars Skúlasonar. Gaman var að sjá börnin uppskera þar sem þau hafa æft sig af kappi og voru full tilhlökkunar að sýna afraksturinn. Þau voru virkilega flott og stóðu sig öll með stakri prýði.

Við þökkum Listaskóla Borgarfjarðar og Sigfríði kærlega fyrir að setja upp þessa flottu Barnamenningarhátíð og leiða saman skóla sveitarfélagsins á svo skemmtilegan og skapandi hátt!