Foreldrar

Fjölskyldan og leikskólinn
Mikil og góð samvinna við foreldra er forsenda þess að barninu líði vel í leikskólanum.

Við upphaf leikskólagöngu er lagður grunnur að samstarfi heimilis og skóla þar sem umhyggja og velferð barnsins er höfð að leiðarljósi. Borin er virðing fyrir mismunandi fjölskyldugerðum og menningu. Samstarfið byggist á gagnkvæmum skilningi og virðingu fyrir ólíkum viðhorfum og gagnkvæmu trausti og trúnaði. Samstarfið byggir jafnframt á þeirri forsendu að foreldrar beri meginábyrgð á uppeldi barna sinna.

Túlkaþjónusta er í boði fyrir foreldra barna af erlendum uppruna eins oft og þurfa þykir.

Foreldrar eru hvattir til að kynna sér starfshætti leikskólans og taka þátt í daglegu starfi. Foreldrar eru ávallt velkomnir í leikskólann. Lögð er mikil áhersla á að koma upplýsingum sem varða leikskólastarfið til foreldra, m.a. með vikulegum fréttaskotum, tölvupósti, á upplýsingatöflu og í daglegum samskiptum.