Útivist og föt

Útivist er öllum mikilvæg. Í aðalnámskrá leikskóla segir að í leikskóla eigi börn að fá tækifæri til fjölbreyttrar hreyfingar og útiveru. Í skóla sem leggur áherslu á daglega hreyfingu og markvisst hreyfiuppeldi sé lagður grunnur að líkamlegri, andlegri og félagslegri velferð til lífstíðar. Einnig segir að í leikskóla beri að stuðla að heilbrigði og vellíðan barna með því að leggja áherslu á m.a. ögrandi og krefjandi útivist.

Við á Hnoðrabóli leggjum mikla áherslu á útivist. Allt árið um kring förum við út a.m.k 1x á dag ef veður mögulega leyfir og kennum þannig börnunum að það er gaman að vera úti í öllum veðrum og alltaf þarf að vera klæddur eftir veðri. Okkur er mjög umhugað um að börnin séu rétt klædd eftir veðri. Hér í húsi er alltaf tekin staðan á hitastigi og vindi og út frá því er ákvörðun tekin hvernig best sé að börnin klæði sig frá degi til dags.

Hlutverk foreldra í útivistaruppeldi leikskólans er að gæta þess að börnin hafi þann búnað með sem þau þurfa hverju sinni. Foreldrar bera ábyrgð á því að yfirfara fatahólf barnanna daglega og að merkja fötin svo þau fari ekki á flakk. Allur útifatnaður fer heim á föstudögu. Mikilvægt er að þrífa útifatnaðinn reglulega. 

Þar sem margvísleg kennsla fer fram utandyra getur útifatnaðurinn orðið skítugur, blautur og jafvel blettóttur. Foreldrar eru beðnir að senda börnin ekki með trefla í leikskólann, heldur lambhúshettur eða lausan kraga.Treflar og reimar hafa valdið slysum á börnum. 

Listi yfir útifatnað sem börnin þurfa að eiga: 

 • Pollafatnaður: buxur og jakki. Athugið að yfir sumartímann þarf oft að nota pollaföt en þá eru flísfóðruð pollaföt oft of heit en ófóðruð ganga vel yfir veturinn ef barnið á góð innanundir föt.  
 • Hlý peysa og buxur, ull eða flís. Heilgallar eru góðir fyrir þau yngstu en stundum er of heitt fyrir þá svo mikilvægt er að eiga líka peysu með heilgöllum.  
 • Vindþétt lambhúshetta eða hlý húfa og hálskragi og léttari húfa/buff 
 • Hlýir sokkar og vettlingar. Gott er að eiga líka vatnshelda vettlinga, lúffur eða ófóðraða pollavettlinga sem ganga utanyfir ullarvettlinga.  
 • Kuldagalli, vatnsheldur.  
 • Skófatnaður:
  Allan ársins hring er mikilvægt að hafa stígvél. Yfir veturinn er mikilvægt að stígvél séu rúm svo börnin geti verið í góðum ullarsokkum.
  Strigaskór þegar hlýtt og þurrt er í veðir
  Gott er að hafa kuldaskó eða fóðruð stígvél þegar kaldast er. 
 • Fyrir yngstu börnin sem ekki eru farin að ganga er gott að eiga pollasokka sem settir eru utanyfir ullarsokka frekar en skó/stígvél. 

Með því að klæða börn í lagskiptann fatnað þá nýtist hver flík lengur og við fleirri tilefni. Mikilvægt er að ysta lagið sé rúmt svo hægt sé að dúða börnin vel innanundir ef þörf þykir.  

Mörg börn hér í leikskólanum fara flesta daga í útihús heima hjá sér og því þykir okkur mikilvægt að biðja um að börnin noti ekki sama fatnað eða skófatnað í leikskólann og útihúsin, nema hann sé þveginn á milli.

Aukaföt

Þar sem dagarnir eru jafn misjafnir og þeir eru margir og kennslustundirnar innihalda útivist í öllum veðrum, sull og sköpunarleiki svo fátt eitt sé nefnt þarf að huga að því að börnin séu alltaf með nóg af auka fatnaði ef á þarf að halda.

Í leikskólanum vinnum við með ýmis efni. s.s. liti, lím og málningu sem geta farið í föt barnanna. Takið tillit til þess.

Við bendum á að aukahlutir eins og skartgripir, belti o.þ.h. á ekki heima í leikskólanum.

Það er mjög misjafnt eftir börnum hversu mikið þarf að nota aukafötin en gott er að miða við að hafa a.m.k. þrjú sett fyrir þau yngri og tvö fyrir eldri.

Foreldrar bera ábyrgð á að alltaf sé nóg af fötum í aukafataboxinu.

Í aukafataboxinu þarf að vera:

 • 3 nærbuxur
 • 2-3 nær-/stuttermabolir
 • 3 sokkapör
 • 2 buxur
 • 2 langermabolir/peysur
 • Fjölnota poki fyrir blaut föt