Föstudaginn 1. desember. Löng hefð er fyrir því í grunnskólanum Varmalandi að hefja aðventuna á kyndilgöngu nemenda upp að kletti og kveikja á jólastjörnunni sem svo lýsir upp skammdegið. Foreldrum var boðið með í gönguna og var fjölmennt. Þegar kveikt hafði verið á stjörnunni sungu nemendur og foreldrar nokkur jólalög og renndu sér svo til baka í skólann, þar sem boðið var upp á heitt súkkulaði og piparkökur. Þar tóku nemendur lagið fyrir foreldra og sungu jólalög á íslensku og úkraínsku. Foreldrar fylgdu svo nemendum á hinar ýmsu föndurstöðvar í skólanum og nutu samverunnar fram að hádegi. Góður dagur og góð byrjun á aðventunni.