Grænfáninn, skólar á grænni grein, er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Grænfánaverkefninu á Íslandi er stýrt af Landvernd sem er aðili að alþjóðlegu samtökunum FEE(Foundation for Environmental Education in Europe).
Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga „skrefin sjö“ í átt til bættrar umhverfisstjórnunar. Þegar því marki er náð fá skólarnir leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö ár en sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.
Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða um heim sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.
Á útmánuðum 2001 var öllum grunnskólum á landinu sent kynningarbréf um Grænfánann og óskað eftir að áhugasamir sæktu um þátttöku og í maí stofnaði Landvernd sérstakan stýrihóp um verkefnið og réð verkefnisstjóra. Tólf skólar sóttu formlega um að taka þátt frá byrjun í verkefninu á Íslandi og var Andakílsskóli (nú Hvanneyrardeild) einn af þeim. Niðurstaða stýrihóps var að svara þeim öllum jákvætt. Strax vorið 2002 voru þrír fyrstu Grænfánarnir dregnir að húni á Íslandi og þar á meðal Andakílsskóli.
Grunnskóli Borgarfjarðar leggur áherslu á að nemendur og starfsfólk beri virðingu fyrir umhverfinu og leggi sitt af mörkum til að vernda umhverfið og náttúruna.
Það gerum við með því að:
– Flokka sorp
– Spara rafmagn og vatn
– Ganga vel um skólann
– Draga úr notkun pappírs og stuðla að endurnýtingu hans
– Draga úr notkun á einnota vörum
– Nota afgangsefni í verkefni eins og kostur er
– Nota rafræn samskipti eins og kostur er til að spara pappír
– Varast mengun og nota umhverfisvænar hreinlætisvörur