Grunnþættir í menntun

Grunnþættir í menntun ásamt áhersluþáttum grunnskólalaga skulu vera leiðarljós í almennri menntun og starfsháttum í grunnskóla. Þeir eiga að birtast í inntaki námsgreina og námssviða aðalnámskrár, í hæfni nemenda, námsmati, skólanámskrá og innra mati skólans. Grunnskólinn er eina skólastigið sem nemendum er skylt að sækja og er því mikilvægur vettvangur til að þroska með nemendum hæfni í anda grunnþáttanna og sem búa þau undir þátttöku í lýðræðissamfélagi (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011).

Læsi

Læsi er vítt hugtak sem snýst um sköpun merkingar og getur falið í sér hæfni til að lesa í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt. Náttúru -, upplýsinga- og myndlæsi eru þættir sem þjálfa þarf í margvíslegu samhengi í gegnum alla skólagönguna. Lestur og ritun eru tæki sem nýtast til að ná því meginmarkmiði læsis að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn.

Skólinn hefur verið byrjendalæsisskóli til margra ára. Með markvissri þjálfun á yngsta stiginu í fjölbreyttu læsi styrkir stoðir nemandans fyrir áframhaldandi nám.

Mikið er lagt upp úr lestri á margvíslegan máta og gegnir bókasafn skólans lykilhlutverki með því að hafa á boðstólnum fjölbreytt efni á íslensku og erlendum tungumálum, bæði bækur, tímarit og margmiðlunarefni.

Sjálfbærni

Í sjálfbærnimenntun felst viðleitni til að skapa ábyrgt samfélag, sem stuðlar að aukinni víðsýni um mikilvægi vistkerfa náttúrunnar í afkomu kynslóðanna. Nemendur þurfa því að þekkja, skilja og virða náttúruna, bæði vegna sjálfgildis hennar og þeirrar þjónustu sem hún innir af hendi. Nemendur þurfa einnig að verða meðvitaðir um mikilvægi einstaklingsins í samfélagslegri uppbyggingu og þátttöku, sem er undirstaða velferðar og jöfnuðar (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011).

Í GBF eru nemendur hvattir til umræðu og gagnrýnnar hugsunar. Lögð er mikil áhersla á góða umgengni um skólalóð og eigur skólans, einnig að nemendur verði meðvitaðir um þau verðmæti sem þeir umgangast dags daglega og gildi þess að fara vel með gjafir náttúrunnar. Unnið er eftir ákveðnum vinnuferlum í tengslum við flokkun sorps og umgengni um skólann. Skólinn er Grænfánaskóli.

GBF stefnir að því að starfsmenn hans og nemendur verði meðvitaðir um siðferðisleg gildi, virðingu og gagnrýna hugsun varðandi hnattræn áhrif okkar. Þar skiptir meginmáli að gera sér grein fyrir því að viðbrögð heima skipta ekki síður máli en þáttaka á heimsvísu. Með öðrum orðum „Við verðum að vera breytingin sem við viljum sjá í heiminum.“ (Ghandi)

Lýðræði og mannréttindi

Forsenda lýðræðis er samábyrgð, meðvitund og virkni borgaranna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt og hafa áhrif nær og fjær. Virðing fyrir manngildi og heilbrigði barna og ungmenna felur bæði í sér virðingu fyrir mannréttindum þeirra og viðurkenningu á hæfileikum þeirra og þroskamöguleikum. Skólum ber að rækta það viðhorf að samfélagið eigi að vera lýðræðislegt og einstaklingarnir gagnrýnir og með framtíðarsýn.

Lýðræðis- og mannréttindamenntun byggist á gagnrýninni hugsun og ígrundun um grunngildi samfélagsins. Slíkt nám gerir ráð fyrir samstarfi út fyrir veggi skóla engu síður en samstarfi í skólanum. Þannig þarf að gera ráð fyrir virku samstarfi við heimili barna og ungmenna og við æskulýðs- og íþróttastarf. Áhersla er lögð á að lýðræðislegir skólar geti þannig tekið þátt í að skapa samábyrgt og sjálfbært samfélag (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011)

Jafnrétti

Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Í skólastarfi skulu allir taka virkan þátt í að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis.

Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og í stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra.

Undir jafnréttismenntun fellur m.a. nám um kyn og kynhneigð. Með grunnþættinum jafnrétti er einnig lögð áhersla á að fram fari nám um menningu, þjóðerni, tungumál, trúarbrögð og lífsskoðanir. Með jafnrétti er einnig lögð áhersla á félagslegan skilning á því hvað felst í fötlun. Áskoranir fólks með fötlun eiga ekki síður rætur í umhverfinu en í skerðingu einstaklings. Leggja skal áherslu á skóla án aðgreiningar í öllu skólastarfi (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011).

Sköpun

Í sköpun felst að móta viðfangsefni og miðla þeim, búa til, gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi kann eða hefur gert áður. Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Sköpun er að sjá fyrir það óorðna og framkvæma það. Sköpun byggist á forvitni, áskorun, spennu og leit. Glíman við viðfangsefnið og það að finna lausn getur verið umbun sköpunarinnar í sjálfu sér.

Sköpun byggist á gagnrýnni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika og því skiptir sköpunarferlið ekki síður máli en afrakstur verksins. Sköpun sem grunnþáttur skal stuðla að ígrundun, persónulegu námi og frumkvæði í skólastarfi.

Sköpun er mikilvægur grunnur að því að horfa til framtíðar og móta sér framtíðarsýn, taka þátt í mótun lýðræðissamfélags og skapa sér hlutverk innan þess (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011)

Heilbrigði og velferð

Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Til að takast á við daglegt líf þarf einstaklingur að vera í andlegu jafnvægi, líða vel líkamlega og standa vel félagslega. Mennta þarf nemendur og styðja þá þannig að þeir geti tekið upplýstar og ábyrgar ákvarðanir í tengslum við eigið heilbrigði.

Með skýrum markmiðum skóla um líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði nemenda er stuðlað að jákvæðum skólabrag, bættum námsárangri og vellíðan nemenda.

Allt skólastarf þarf að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra. Í skólum þarf að skapa börnum og ungmennum aðstæður til heilbrigðra lífshátta (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011).

Nemendur í Grunnskóla Borgarfjarðar fá allir fjóra íþrótta- og sundtíma á viku. Skólinn er Heilsueflandi skóli og vinnur eftir þeim grunngildum.