Miðvikudaginn 25. mars s.l. þurfti að loka leikskólanum Klettaborg í Borgarnesi. Var það gert til að hefta útbreiðslu kórónuveirusmits þar sem hluti starfsfólks hefur greinst með Covid-19 smit.
Rakningarteymið mat það svo að það væri best að loka skólanum og var því lítið annað í stöðunni en að loka starfsemi Klettaborgar. Leikskólinn mun taka aftur til starfa eftir páska.
Leikskólinn Ugluklettur í Borgarnesi er lokaður í augnablikinu eins og hefur áður komið fram, vegna varúðarráðstafana en þar greindist jafnframt smit. Þar sem aðeins hluti starfsmanna Uglukletts er í sóttkví er unnið að því að þrífa og sótthreinsa leikskólann og stefnt að því að opna hann aftur mánudaginn 30. mars fyrir forgangshópa.
Aðrir leikskólar sveitarfélagsins eru opnir.
Borgarbyggð sendir börnum, foreldrum, forráðamönnum og starfsmönnum Klettaborgar og Uglukletts hlýjar kveðjur og leiðbeiningar sem ágætt er að hafa í huga um sóttkví í heimahúsi.