Þátttökuaðlögun
Í leikskólanum Andabæ er stuðst við aðlögunaraðferð sem kallast þátttökuaðlögun en hún var fyrst þróuð í Svíþjóð.
Það sem fyrst og fremst greinir þátttökuaðlögunina frá þeirri eldri er að hún tekur mun skemmri tíma eða þrjá daga. Börnin sem byrja í leikskólanum eru aðlöguð inn undir umsjá og verndarhönd foreldra sinna. Hugmyndafræðin á bak við þessa aðlögun er sú að öryggi foreldra smiti eigin öryggiskennd yfir til barnsins. Gengið er út frá því að upplifunin auki forvitni foreldranna og spennu. Kynni þeirra af dagskipulaginu, starfsfólkinu, hinum börnunum og foreldrum þeirra auki áhugann á velferð skólans og að þau verði fremur tilbúin til þess að taka þátt í starfi á vegum leikskólans vegna þessa nýstofnuðu kynna.
Framkvæmd
Á tilsettum degi sem barnið mætir í fyrsta skiptið hefst aðlögunin með því að barnið mætir kl. 09:00 í leikskólann og er til kl. 10:30 með öðru foreldri sínu.
Næstu 2 daga er foreldri og barn frá kl. 08:30 til kl. 14:00 og 14:40. Foreldrarnir eiga að taka þátt í öllum verkefnum barnsins undir leiðsögn kennaranna þessa daga. Þeir sjá að auki um að sinna þörfum þeirra; gefa þeim að borða, skipta um bleiur og leika með þeim. Hlutverk kennaranna er að leiðbeina foreldrum og börnum, leggja þeim til verkefni og skrá hjá sér ýmis atriði í samskiptum foreldra og barna, atriði sem þeir svo tileinka sér í samskiptum sínum við viðkomandi barn.
Á fjórða degi kveðja börnin foreldra sína og eru svo í leikskólanum allan daginn. Gott er að sækja barnið snemma til að byrja með.