Mat á skólastarfi

Námsmat 

Mat á námi, þroska og velferð barna felur í sér að safnað er upplýsingum um það sem börn fást við dags daglega og það sem þau hafa áhuga á. Upplýsingarnar eru notaðar til að styðja við nám og velferð barna við skipulagningu starfsins og í samstarfi við foreldra. Þegar fylgst er með þroska, námi og velferð barna er lögð áhersla á alhliða þroska, sjálfstæði, áhugasvið, þátttaka í leik úti og inni, félagsfærni og samkennd, frumkvæði og sköpunarkraft, tjáningu og samskipti. Í Andabæ eru notuð nokkur matstæki og búin eru til skráningar blöð þegar það á við t.d. varðandi hegðun og samskipti. 

TRAS er skráningarkerfi þar sem haldið er utan um skráningu á málþroska barna frá tveggja ára aldri. Efnið var samið í Noregi af sérfræðingum á sviði sérkennslu og talmeinafræði. Listinn miðar að því að fylgjast með málþroska barna í daglegu leikskólastarfi og þannig sé hægt að skipuleggja málörvun fyrir þau börn sem á þurfa að halda (Björk Alfreðsdóttir o.fl., 2013:7). TRAS skráningin tekur til málskilnings, málvitundar, framburðar, orðaforða, setningamyndunar, félagsfærni, samskipta, einbeitingar og athygli (Björk Alfreðsdóttir o.fl., 2013:11). Deildastjóri heldur utan um skráninguna og fyllir inn í TRAS skráningarblaðið tvisvar sinnum á ári fyrir hvert barn. 

Heilsubók barnsins hún er grunnur heilsustefnunnar því hún hjálpar okkur að ná settum markmiðum. Vor og haust eru börnin metin og árangurinn skráður í heilsubókina, og í framhaldi af því fá foreldrar viðtal við kennara, sem skýrir þeim frá stöðu barnsins. Matsaðferðin felst í nákvæmri skráningu á þroska barns og færni, skráð er heilsufar, hæð og þyngd, félagsleg færni, og listsköpun (þróun teikninga o.s.frv.) einnig er líðan barns skoðuð. Skráningin veitir kennurum haldbæran grunn í foreldraviðtölum þar sem farið er yfir niðurstöður. Þessi leið gefur hlutlausa heildarsýn yfir stöðu barns í öllum þroskaþáttum. Heilsubók barnsins er í öllum tilfellum trúnaðarmál og eign barnsins að leikskólagöngu lokinni. 

Í október ár hvert er lagt Hljóm-2 fyrir elsta hópinn. Það er próf í leikjaformi sem kannar hljóðkerfisvitund.Með hljóðkerfisvitund er átt við að barnið geri sér grein fyrir að tungumál hefur ákveðið form og það skiptir ekki bara máli hvað er sagt, heldur hvernig það er sagt.Barnið gerir sér grein fyrir hljóðfræðilegri uppbyggingu talaðs orðs og fer að geta hugsað og talað um hljóðkerfi málsins. Barn sem svarar að ekki heyrist /s/ í sól af því að sólin tali ekki, hefur t.d. ekki enn þroskað þennan hæfileika. Rannsóknir hafa sýnt að börn sem eru með lestrarerfiðleika hafa yfirleitt slaka hljóðkerfisvitund.Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að hægt er að þjálfa hljóðkerfisvitund barna á leikskólaaldri og ef slíkt er gert gengur börnum betur síðar að læra að lesa. Niðurstöður þessa prófs fylgja svo barninu í grunnskólann. Hljóm-2 hefur forspárgildi fyrir niðurstöður samræmdu prófa í 4. 7. og 9. bekk. Foreldrar fá skriflega niðurstöðu frá leikskólanum þegar búið er að leggja prófið fyrir og reikna úr því.