Lög Nemendafélags Grunnskólans í Borgarnesi/starfsreglur nemendaráðs

Lög Nemendafélags Grunnskólans í Borgarnesi/ starfsreglur nemendaráðs 

Félagið hefur ákveðið hlutverk og gegnir vissum skyldum og hefur stjórn félagsins sett sér eftirfarandi starfsreglur í samræmi við Lög um nemendafélög við grunnskóla nr. 91/2008, 9.gr. 

Gr. 1
Um félagið 

Félagi heitir Nemendafélag Grunnskólans í Borgarnesi (NFGB)  og er félag nemenda í 8. – 10. bekk í Grunnskólanum í Borgarnesi. 

Gr. 2
Tilgangur og markmið 

Tilgangur félagsins er að efla félagslegan áhuga nemenda, stuðla að félagsstarfi í skólanum og standa vörð um hagsmuni og velferð allra nemenda skólans. 

Gr. 3
Kosning nemendaráðs 

Kjósa skal fulltrúa í stjórn nemendafélagsins (stjórnin er hér eftir nefnd nemendaráð) í lok hvers skólaárs og gegnir sú stjórn störfum á komandi skólaári.  Kjörgengir eru nemendur 7. – 9. bekk yfirstandandi skólaárs. 

Kjósa skal beinni kosningu: 

 • formann og gjaldkera NFGB sem koma úr röðum 9. bekkinga (verðandi 10. bekkinga). 
 • varaformann sem kemur úr 8.bekk (verðandi 9.bekk). 
 • ritara úr röðum 8. bekkinga (verðandi 9.bekkinga). 
 • 2 meðstjórnendur sem koma úr 7.bekk (verðandi 8.bekk). 

Tæknistjóri og aðstoðartæknistjóri starfa með stjórn. Stjórnin skipar í þau embætti 

Fráfarandi stjórn og deildarstjóri hafa umsjón með framkvæmd kosninga og talningu atkvæða.  Úrslit skulu tilkynnt á skólaslitum að vori. 

 Gr. 4
Verkaskipting nemendaráðs 

Nemendaráð skiptir með sér verkum með eftirfarandi hætti. 

 • Formaður stjórnar fundi og er talsmaður nemendafélags út á við. Stýrir starfi hópsins og er ábyrgur fyrir því að skipuleggja dagskrá.  Formaður verður að sýna starfi sínu áhuga og hafa stjórnunarhæfileika. Hann þarf að vera í góðu sambandi við skólayfirvöld, kennara, starfsfólk og samnemendur. Hann þarf að hafa gott lag á að skipta verkum á milli manna og virkja sem flesta nemendur til þátttöku í félagsstarfi. 
 • Varaformaður er formanni til aðstoðar og er staðgengill formanns í forföllum hans. 
 • Gjaldkeri sér um fjármál nemendafélagsins.  Flest af því sem hann framkvæmir gerir hann undir handleiðslu umsjónarmanns.  Gjaldkeri hefur umsjón með fjáröflunum, innheimtu aðgangseyris á skemmtunum o.s.frv. Veitir aðhald í frjámálum og þarf að geta sagt til um hvort fé sé til fyrir verkefnum. 
 • Ritari skráir fundargerð og heldur utan um gögn. Hann heldur skrá um öll verk hópsins og gengur frá öllum skriflegum bréfum og yfirlýsingum sem hópurinn vill senda frá sér. Sér um fréttatilkynningar, auglýsingar o.fl. 
 • Meðstjórnandi er staðgengill ritara. Tekur þátt í ákvarðanatöku og sinnir þeim hlutverkum sem formaður eða umsjónaraðili felur honum. 
 • Tæknistjóri heldur utan um tæknimál á öllum viðburðum nemendafélagsins. 
 • Aðstoðartæknistjóri er tæknistjóra til aðstoðar og staðgengill hans. 
 • Tveir fulltrúar nemendaráðs sitja sem fulltrúar nemenda skólans í skólaráði 2. mgr. 8. gr. í lögum um grunnskóla nr. 91/2008. Að öllu jöfnu eru það formaður og varaformaður nemendaráðs en heimilt er að kjósa í það hlutverk. 

Gr. 5
Starfsemi nemendaráðs 

Daglega umsjón félagsins annast stjórn þess og til aðstoðar deildarstjóri unglingastigs. 

Nemendaráð fundar að jafnaði einu sinni í viku með deildarstjóra unglingastigs og/ eða stuðningsfulltrúa, sér um að skipuleggja það starf sem fellur beint undir skólann. Starfstími Nemendaráðs er frá hausti fram að skólaslitum að vori. 

Nemendaráð skal vera ráðgjafi skólastjórnenda um ýmis málefni nemenda, t.d. félagsmál, tómstundir og starfsaðstöðu. Skipuleggur í samstarfi við skólastjórnendur, félagsstörf nemenda og sér um framkvæmd þeirra. 

Nemendaráð semur  starfsáætlun þar sem allir félagsmenn eiga að finna eitthvað við sitt hæfi og skal sjá til þess að upplýsingar um félagsstarfið séu vel kynntar öllum er málið varðar. 

Fulltrúar í nemendaráði skulu vera öðrum nemendum skólans jákvæð og uppbyggileg fyrirmynd, jafnt innan skóla sem utan. 

 Gr. 6
Viðburðir og verkefni 

Helstu viðburðir og verkefni sem nemendaráð kemur að með skipulagningu, undirbúningi, markaðssetningu og framkvæmd eru eftirfarandi: 

 • jólaútvarp 
 • ferð á Skólahreysti 
 • Lyngbrekkuball 
 • tæknimál og annar undirbúningur er viðkemur árshátíð og öðrum samkomum í skólanum 
 • uppákomum fyrir yngstu nemendur skólans 
 • tiltekt og frágangur eftir viðburði ásamt öðrum þátttakendum í starfinu 
 • önnur verkefni sem Nemendaráð hefur ákveðið að standa fyrir. 

Hagnaði af starfsemi félagsins skal varið til niðurgreiðslu á kostnaði vegna þeirra viðburða og verkefna sem NFGB stendur fyrir, ásamt því að styrkja ferðir félagsmanna á skólaárinu. 

Gr. 7
Valgrein 

Starf hvers og eins fulltrúa í nemendaráði og tæknimanna er metið sem ein valgrein við Grunnskólann á Borgarnesi. 

Gr. 8
Breyting á starfsreglum 

Til að breyta starfsreglum/lögum þessum þarf samþykki meirihluta nemendaráðs, samþykki skólastjóra og deildarstjóra unglingastigs Grunnskólans í Borgarnesi. 

Allir þessir aðilar geta gert tillögu að breytingum á starfsreglunum/lögum félagsins.Breytingarnar öðlast þó ekki gildi nema meirihluti stjórnar nemendafélagsins samþykki þær.