Besta barnabókin 2023

Kosið um bestu barnabókina.

Fyrir páska bauðst nemendum í 2.- 7. bekk að taka þátt í kosningu á bókasafninu. Kosið var um bestu barnabók ársins 2023. Kosningin er hluti af verkefninu Sögur-bókaverðlaun barnanna sem nær til allra barna á landinu.

174 atkvæði voru greidd af 75 nemendum og skiptust á 42 ólíka titla. Það er greinilega mikill fótboltaáhugi í okkar skóla því vinsælustu bækurnar voru :

  1. Messi er frábær
  2. Sveindís Jane; saga af stelpu í fótbolta
  3. Mbappé er frábær
  4. Strandaglópar; (næstum því) alveg sönn saga
  5. Lára missir tönn og Skólaslit 2 (jafnar í 5. Sæti).

Einn heppinn nemandi af þeim sem kusu var dreginn út og fékk bókaverðlaun. Verðlaunahafinn í ár var Emil Mager í 5. bekk. Við þökkum öllum þeim sem tóku þátt.

Atkvæði úr okkar skóla voru svo send á Borgarbókasafnið þar sem atkvæði af öllu landinu voru talin. Sunnudaginn 14. apríl var öllum bókelskandi börnum og foreldrum þeirra boðið á Borgarbókasafnið í Grófinni þar sem úrslitin voru kynnt.

Þetta eru bækurnar sem fengu flest atkvæði á landsvísu í valinu um barnabók ársins 2023:

Lára missir tönn

Orri óstöðvandi – Jólin eru að koma

Salka – Hrekkjavaka

Alexander Daníel Hermann Dawidson – Bannað að drepa

Bella gella krossari

Dagbók Kidda klaufa – Rokkarinn reddar öllu

Messi er frábær

Mbappé er frábær

Góða nótt leðurblaka

Hundmann – Flóadrottinssaga

 

Næsta skref er rafræn kosning þar sem krökkum á  aldrinum 6 – 12 ára býðst að taka þátt í kosningu Sagna –  verðlaunahátíð barnanna. Þar geta þau valið lag ársins, texta ársins, barna- og unglingaefni ársins, fjölskylduþátt ársins, talsetta efni ársins, sýningu ársins, leikara/flytjanda ársins, sjónvarpsstjörnu ársins og bók ársins í flokki íslenskra bóka og þýddra bóka.

Hér er hlekkur fyrir áhugasama til að kjósa: https://www.ruv.is/frettir/menning-og-daegurmal/2024-04-14-kosning-sogur-verdlaunahatid-barnanna-2024-410096

Sögur – verðlaunahátíð barnanna verður svo sýnd í beinni útsendingu á RÚV þann 8. júní klukkan 19:55

Myndir sem fylgja þessari frétt eru frá bókasafninu okkar þar sem nemendur eiga sér smá athvarf til að stíga út úr skarkalanum sem stundum er á göngum skólans.