Lausnateymi er jafningjastuðningur við kennara og hlutverk þess er að skoða stöðu barns og leita sameiginlegra lausna þannig að hægt sé að veita barninu og fjölskyldu þess stuðning.
Í lausnateymum er nám, hegðun, þroski og líðan barns rædd og úrræði fundin til þess að bregðast við erfiðleikum eða aðstæðum barns.
Þetta er gert í góðu samstarfi við foreldra barnsins og þeir virkjaðir með það í huga að úrræðin sem lögð eru til séu nýtt bæði í skóla og á heimili eftir því sem þurfa þykir.
Með því að taka mál fyrir í lausnateymi er unnið eftir hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar og barn og foreldrar þess aðstoðaðir með það að markmiði að efla lífsgæði og framtíðarhorfur barns.
Vinnulag
Kennarar senda tilvísun til lausnateymis á sérstöku eyðublaði ef þeir telja sig þurfa aðstoð og/eða handleiðslu. Lausnateymið tekur fyrir tilvísanir frá kennurum.
Kennarar eru kallaðir á fund teymisins þar sem unnið er í lausnaleit. Ef umsjónarkennari er ekki tilvísandi er hann kallaður á fund teymisins ásamt tilvísunaraðila.
Fyllt er út lausnarblað teymisins þar sem gerð er áætlun um næstu skref.
Lausnateymi getur óskað eftir aðkomu kennsluráðgjafa vegna vinnslu ákveðinna mála, teymið getur afgreitt og sent beiðnir til talmeinafræðinga og atferlisfræðinga.
Þeim málum sem ekki hefur tekist að leysa með aðstoð lausnateymis er vísað til nemendaverndarráðs.
Í reglugerð 584/2010 segir um starfsemi nemendaverndarráða grunnskóla að skólastjóri grunnskóla samræmi innan hvers grunnskóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda er lúta að sérfræðiþjónustu, náms- og starfsráðgjöf og skólaheilsugæslu með stofnun nemendaverndarráðs skv. 40. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla.
Jafnframt skal skólastjóri grunnskóla stuðla að samráði við félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöld vegna málefna einstakra nemenda eða nemendahópa eftir því sem þurfa þykir.
Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi skólaheilsugæslu, náms- og starfsráðgjöf og sérfræðiþjónustu og vera skólastjóra til aðstoðar um framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. Samstarfið getur verið bæði vegna einstakra nemenda og forvarnarstarfs.
Skólastjóri skipar nemendaverndarráð til eins árs í senn og er ábyrgur fyrir starfrækslu ráðsins sem skal taka mið af aðstæðum í hverjum skóla. Skólastjóri eða fulltrúi hans stýrir starfi nemendaverndarráðs.
Í nemendaverndarráði grunnskóla eiga sæti skólastjóri og/eða fulltrúi sem hann tilnefnir, umsjónaraðili kennslu nemenda með sérþarfir, fulltrúi skólaheilsugæslu, fulltrúi sérfræðiþjónustu sveitarfélags og náms- og starfsráðgjafi. Einnig geta fulltrúar frá félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöldum tekið þátt í starfi nemendaverndarráðs þegar tilefni er til.
Fái nemandi ekki fullnægjandi aðstoð vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika skal umsjónarkennari vísa málinu skriflega til nemendaverndarráðs.
Fulltrúar í nemendaverndarráði geta haft frumkvæði að því að mál einstakra nemenda séu tekin upp í ráðinu.
Starfsfólk skóla, foreldrar, nemendur og fulltrúar sérfræðiþjónustu skólans geta óskað eftir því við skólastjóra eða fulltrúa hans í nemendaverndarráði að mál einstakra nemenda eða nemendahópa verði tekin fyrir í ráðinu.
Ávallt skal upplýsa foreldra um að máli barna þeirra sé formlega vísað til skólastjóra eða nemendaverndarráðs og leita eftir samstarfi við foreldra um lausn mála eftir því sem framast er kostur.
Nemendaverndarráð skal taka fyrir málefni sem vísað er til ráðsins eins fljótt og auðið er.
Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði fyrir einstaka nemendur eða nemendahópa sem lögð hafa verið fyrir ráðið. Ráðið metur hvaða viðbótarupplýsinga er þörf og boðar á sinn fund umsjónarkennara og foreldra svo og aðra aðila sem tengjast málinu ef þörf krefur.
Þegar ákvörðun hefur verið tekin um nauðsynlegar ráðstafanir, umbætur eða aðgerðir getur skólastjóri falið aðilum innan ráðsins að fylgja málinu eftir ef nauðsyn krefur.
Fara skal með persónuupplýsingar í samræmi við fyrirmæli um þagnarskyldu og gildandi lög um persónuvernd. Þeir sem sitja í nemendaverndarráði skulu gæta þagmælsku um atriði sem varða einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem þeir fá vitneskju um og leynt eiga að fara. Þagnarskylda nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af störfum.
Nemendaverndarráð setur sér starfs- og verklagsreglur þar sem m.a. er kveðið á um tíðni funda ráðsins. Halda skal fund í nemendaverndarráði ef a.m.k. tveir fulltrúar í ráðinu óska þess. Fundir skulu færðir til bókar.
Náms- og starfsráðgjafi er málsvari nemenda og trúnaðarmaður. Hann leitast við að aðstoða þá við lausn ýmissa mála sem upp koma. Hann stendur vörð um velferð nemenda á breiðum vettvangi og veitir þeim ráðgjöf. Hann vinnur í nánu samstarfi við foreldra eftir því sem við á og aðra sérfræðinga innan og utan skólans. Námsráðgjafi er ekki meðferðaraðili en aðstoðar við lausn á vandamálum og vísar málum einstaklinga til viðeigandi sérfræðings s.s. sálfræðings, hjúkrunarfræðings og sérkennara, eftir því sem við á. Helstu verkefni náms- og starfsráðgjafa eru:
- Nám, námstækni og prófkvíði
- Framhaldsnám og starfsval
- Aðstoð við raunhæfar áætlanir m.t.t. áhugasviðs
- Persónuleg mál
Aðstoð námsráðgjafa beinist að því að auka þekkingu nemenda á sjálfum sér, viðhorfum sínum, áhuga og hæfileikum þannig að þeir fái betur notið sín í námi og starfi. Dæmi um erindi nemenda til náms- og starfsráðgjafa er tengjast náminu:
- Skipulag heimanáms
- Einbeitingarskortur í náminu
- Skipulagsleysi
- Kvíði tengdur skólagöngu og prófum
- Mætingar
- Námsleiðir
- Starfsval
Dæmi um erindi nemenda til náms- og starfsráðgjafa er tengjast persónulegum málum:
- Samskipti við aðra, s.s. hitt kynið, kennara, bekkjarfélagana
- Hvernig nýta má hæfileika nemenda
- Feimni
- Einmannaleiki
- Stríðni
- Einelti
- Kvíði og þunglyndi
- Ýmislegt sem nemendum liggur á hjarta
Nemendur geta leitað beint til námsráðgjafa með þau mál sem þeim liggja á hjarta. Jafnframt geta foreldrar, kennarar og stjórnendur skólans vísað málum til námsráðgjafa.