Nemendur á yngsta stigi á Varmalandi fóru nýverið í útikennslu í skógræktinni við skólann og fengu þar tækifæri til að vinna með náttúruna á skapandi hátt. Veðrið lék við hópinn og gleðin skein úr hverju andliti þegar börnin fóru í leit að efniviði til að vinna með.
Kennarar höfðu undirbúið verkefni þar sem nemendur áttu að búa til mismunandi form og mynstur úr því sem náttúran hafði upp á að bjóða – laufum, steinum, trjágreinum og könglum. Börnin unnu í litlum hópum og sýndu mikla hugmyndaauðgi og samvinnu. Úr urðu alls konar listaverk – hringir úr steinum, ferningar úr greinum og mennskir pýramídar svo eitthvað sé nefnt.
Nemendur ræddu saman um form og tengdu verkin við það sem þau hafa verið að læra í stærðfræði og myndmennt.
Útikennslan var bæði fræðandi og skemmtileg og gaf börnunum dýrmæta reynslu af því að læra í náttúrunni. Kennararnir sögðu að svona dagar væru mikilvægt tækifæri til að efla sköpun, samvinnu og tengsl við umhverfið.

