Upprennandi þingmenn á Varmalandi

Nemendur í 2.-4. bekk í Varmalandsdeild Grunnskóla Borgarfjarðar fengu nýverið kynningu á lýðræði í verki þegar þeir unnu skemmtilegt og fræðandi verkefni í tengslum við komandi Alþingiskostningar. Fyrst var nemendum gefin stutt kynning á starfsemi Alþingis og í kjölfarið var rætt um hlutverk þess og mikilvægi. Að því loknu var nemendum skipt í hópa og fengu þeir það verkefni að setja sér bekkjarreglur. Hver hópur vann saman að því að ákveða hvaða reglur væru mikilvægastar fyrir góðan starfsanda í bekknum. Að lokum komu hóparnir upp í púlt og kynntu sínar tillögur á íslensku og úkraísku. Reglurnar voru síðan prentaðar út og hengdar upp á „bekkjarregluvegginn“. Verkefnið var bæði skemmtilegt og fræðandi fyrir nemendur og sýndi fram á mikilvægi þess að allir taki þátt í að móta samfélagið sitt.