Nemendur Kleppjárnsreykjadeildar héldu göngu og hjóladag föstudaginn 30. maí. Í ár fór hjólahópurinn hring fyrir neðan Ruddann (hæðin fyrir ofan Kleppjárnsreyki) í gegnum land Runna, en gönguhópurinn gekk frá Brennistöðum yfir hálsinn að Kópareykjum og svo heim í skóla. Við þökkum landeigendum kærlega fyrir leyfin til að fara í gegn hjá þeim en þessir dagar eru mikilvægir svo nemendur kynnist nærumhverfi sínu. Svo er líka alltaf gott …
Leikskólalestur á Hvanneyri
Gleðin skín úr andlitum yngri nemenda þegar eldri nemendur heimsækja leikskólann á morgnana til að lesa fyrir þau við morgunmatinn. Þessi skemmtilega hefð tengir saman kynslóðir skólans og veitir eldri nemendum tækifæri til að heimsækja gamla leikskólann sinn. Lesturinn styrkir læsi og eflir félagsfærni allra þátttakenda.
Skólaslit Kleppjárnsreykjadeildar GBF
Skólaslit Kleppjárnsreykjadeildar fóru fram I Reykholtskirkju þann 3.júní s.l. Allir nemendur skólans fengu vitnisburð sinn afhentan. Helga Jensína skólastjóri þakkaði fyrir eftirminnilegan vetur ekki síst vegna þeirra framkvæmda sem í gangi eru. Þær Kristín Eir Hauksdóttir Holaker og Erla Ýr Péturdóttir fluttu tónlistaratriði og ávörpuðu samkomuna fyrir hönd útskriftarnema. Sú hefð hefur verið að veita viðurkenningu fyrir mestu framfarir í lestri í 5. bekk og í þetta sinn var það Þorbjörg Ásta Guðmundsdóttir. Þær Heiðbjört Ósk Ásmundsdóttir og Elísabet Halldórsdóttir láta nú af störfum eftir áratuga starf hjá skólanum og var þeim þakkað fyrir vel unnin störf. Að athöfninni lokinni var boðið uppá veitingar í skólanum.
Lokadagurinn á Kleppjárnsreykjum
Að venju var mikið um að vera síðasta skóladag vetrarins á Kleppjárnsryekjum. Nemendur mið- og unglingastigs kepptu í sundi, boðið var uppá spil, andlitsmálun og hoppukastala. 10. bekkingar grilluðu hamborgara ofan í allan mannskapinn og var þeim vel tekið. Eftir matinn fóru allir nemendur í ratleik í liðum sem skipuð voru nemendum af öllum stigum. Að lokum var hinn árvissi fótboltaleikur þar sem 10. bekkingar kepptu við kennara og starfsfólk. Mikil gleði ríkti í mannskapnum þó veðrið hefði vissulega mátt vera betra þennan dag.
Íþróttakona- og maður GBF Kleppjárnsreykjum
Frá árinu 1988 hefur þeirri hefð verið haldið á Kleppjárnsreykjum að nemendur unglingastigs kjósa úr sínum röðum þann sem þeim finnst hafa staðið sig best á sviði íþróttaiðkunar. Síðasta skóladaginn var kjörinu lýst og úrslitin eftirfarandi: Stúlkur: Í 1. sæti: Kristín Eir Holaker Hauksdóttir 10. bekk Í 2. sæti: Helga Laufey Hermannsdóttir 8.bekk Í 3.sæti: Erla Ýr Pétursdóttir 10. bekk Piltar: Í 1. sæti : Reynir Skorri Jónsson 10. bekk Í 2.sæti: Heiðar Smári Ísgeirsson 9. bekk Í 3.sæti: Ólafur Fannar Davíðsson 8. bekk Óskum við þeim öllum hjartanlega til hamingju !
Tilnefning til foreldraverðlauna Heimilis og skóla
Þann 22. maí tók stjórn foreldrafélags Grunnskóla Borgarfjarðar á móti viðurkenningu frá Heimili og skóla. Fræðslufundurinn Samskipti á samfélagsmiðlum var tilnefndur til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla árið 2025. Við óskum foreldrafélaginu innilega til hamingju með þessa verðskulduðu viðurkenningu.
Skólaslit þriðjudaginn 3. júní
Skólaslit hjá Grunnskóla Borgarfjarðar verða þriðjudaginn 3. júní. Tímasetningar skólaslita eru eftirfarandi: Hvanneyri kl. 9:30 í skólanum. Kleppjárnsreykir kl. 11:00 í Reykholtskirkju. Varmaland kl. 13:30 í Þinghamri.
Leikskólalestur á Hvanneyri
Gleðin skín úr andlitum yngri nemenda þegar eldri nemendur heimsækja leikskólann á morgnana til að lesa fyrir þau við morgunmatinn. Þessi skemmtilega hefð tengir saman kynslóðir skólans og veitir eldri nemendum tækifæri til að heimsækja gamla leikskólann sinn. Lesturinn styrkir læsi og eflir félagsfærni allra þátttakenda.
Stærðfræðitími utandyra á Hvanneyri
Gleði og námsáhugi skín úr andlitum nemenda þegar stærðfræðitíminn fór fram undir berum himni í vikunni. Nemendur 4. og 5. bekkjar á Hvanneyri drifu bækurnar með sér út og nutu þess að komast úr kennslustofunni og sinna náminu utandyra.
Bangsadagur og sundlaugarpartý í tilefni lestrarátaks
Nemendur á Varmalandi hafa staðið sig frábærlega í lestrarátaki undanfarna daga og í dag var komið að verðlaunum fyrir dugnaðinn. Í samráði við nemendur var ákveðið að halda bangsadag þar sem hver og einn mætti með sinn uppáhalds bangsa í skólann. Dagurinn hófst á því að nemendur unnu skapandi verkefni tengd bangsanu sínum og kynntu þau svo fyrir bekkjarfélögum sínum. Þar flæddu sögur, lýsingar og persónuleg tengsl við bangsa sem skapaði notalega og fjölbreytta stemningu. Að loknum kynningum var haldið í sund þar sem sannkallað sundlaugarpartý tók við. Þar léku nemendur sér saman, hlógu og nutu dagsins í botn. Allir skemmtu sér konunglega og létu vel af deginum. Við óskum öllum nemendum til hamingju með frábæran árangur í lestri og vonum að bangsadagurinn verði dýrmæt minning í skólagöngunni.