Upphafs knattleikja minnst í Sandvíkinni

október 31, 2003
Það var brosmildur hópur sem minntist upphafs knattleikja á Íslandi í Sandvíkinni þegar söguskiltið var afhjúpað.
Fyrstu heimildir um knattleik á Íslandi eru úr Egilssögu. Knattleikir voru karlmannsíþrótt á þeim tíma og oftar en ekki hljóp köppunum kapp í kinn.
Fræg er frásögnin í Eglu þegar þeir félagar Þórður frá Granastöðum og Egill háðu kapp við Skallagrím í Sandvíkinni. Þeim leik lauk allsnarlega þegar Skallagrímur, sem þá var undir, banaði Þórði og gerði sig líklegan til að láta Egil son sinn fara sömu leið. Þá skarst Þorgerður Brák, ambátt Skallagríms, í leikinn og bjargaði Agli en lét lífið í staðinn.
Upphafs knattleikja var minnst sl. laugardag þegar Ellert B. Schram forseti ÍSÍ afhjúpaði söguskilti í Sandvíkinni og gat þess um leið að knattleikir þeir sem getið er um í Egilssögu eru einnig þeir fyrstu íþróttaviðburðir sem getið er um á Íslandi.
Ellert minntist Þorgerðar Brákar og leiddi að því líkum að hún hafi verið fyrsti knattleiksdómari sögunnar þó svo að hennar dómaraskeið hafi varað stutt en mikil framþróun hefur sem betur fer átt sér stað í leikreglum íþróttamanna, dómurum og leikmönnum til hagsbóta. Skiltið hefur m.a. að geyma upplýsingar um ofnagreindan leik en Menningarnefnd Borgarbyggðar stóð fyrir gerð þessa skiltis sem er það þriðja sem byggt er á Egilssögu og myndskreytt af Guðmundi Sigurðssyni fyrrverandi skólastjóra.
Að sögn Páls Brynjarssonar bæjarstjóra er þetta síðasta skiltið sem samþykkt var að gera í þessum hópi. Ekki er þó ólíklegt að fleiri þáttum úr Egilssögu verði komið á framfæri með upplýsingaskiltum en það verði þá skoðað með tilliti til þeirrar safnauppbyggingar sem stefnt er að í Brákarey.

Share: