Kristján B Snorrason kjörinn forseti Bridgesambandsins

október 24, 2003
Kristján B Snorrason nýkjörinn forseti Bridgesambandsins.
Kristján Björn Snorrason, útibússtjóri Búnaðarbankans í Borgarnesi, var kjörinn forseti Bridgesambands Íslands á 55. ársþingi sambandsins sem haldið var á sunnudag. Kristján var einn í kjöri og var kosningabaráttan því ekki
átakamikil. Hann þurfti hinsvegar að berjast hart við spilaborðið því um helgina var spilað um Íslandsmeistaratitilinn í einmenningi og þar var Kristján í toppbaráttunni og hafnaði í þriðja sæti.
Innan Bridgesambandsins eru nú um 3000 iðkendur og fer þeim fjölgandi að sögn Kristjáns.
Hann segir það einnig farið að skila sér að bridge var sett inn á námsskrá í framhaldsskólum landsins frá og með þessu hausti. „Bridge er nú þegar orðið að valgrein í mörgum framhaldsskólum, Iðnskólanum, MS og Kvennaskólanum þar á meðal og ég reikna með að það verði komið inn í flesta ef ekki alla framhaldsskóla landsins áður en langt um líður.“
Eins og flestir vita hafa íslenskir bridgespilarar einu sinni hlotið heimsmeistaratitilinn í bridge og hömpuðu þá hinni frægu bermúdaskál.
Nýkjörinn forseti segist ekki hafa á móti því að fá skálina góðu aftur til landsins en aðaláhersla Bridgesambandsins á næstunn sé á útbreiðslu bridgeíþróttarinnar. „Við njótum vissulega enn þess góða árangurs sem náðist um árið og heimsmeistararnir eru virtir út um allan heim og meðal annars má geta þess að íslenskri sveit hefur verið boðið á sterkt mót í Yokohama í Japan þar sem heimsmeistaramótið var á sínum tíma. Það er aldrei að vita nema einhverntíma náist að jafna þennan árangur, ekki síst ef við náum að fjölga iðkendum. Okkar markmið er að ná fólkinu aðeins frá tölvuskjánum og spila við aðra augliti til auglitis. Þetta er skemmtileg íþrótt og iðulega skemmtilegur félagsskapur.“
Fjöldi móta er haldinn á hverjum vetri á vegum Bridgesambandsins og eitt af stærstu verkefnunum er alþjóðlegt bridgemót, svokallað Flugleiðamót sem haldið er um miðjan febrúar. „Þangað er boðið fjölmörgum heimþekktum
bridgemönnum og eru þátttakendur þrjú til fjögur hundruð. Á innlendum vettvangi eru meistaramótin stærst en einna merkilegust eru þó kjördæmamótin þar sem gömlu kjördæmin eru enn í heiðri höfð. Það er nokkuð sérstakt að Norðurland Eystra hefur oftast unnið á þessum mótum en Reykjavík ekki nema einu sinni og einnig má gjarnan geta þess að Vesturland hefur einu sinni náð í silfrið,“ segir Kristján.

Share: