Undirskrift menningarsamninga

apríl 4, 2008
Síðastliðinn miðvikudag voru undirritaðir samningar á milli Borgarbyggðar og tveggja stofnana í Borgarfirði sem báðar hafa áunnið sér sess sem virtar menningarstofnanir á sínu sviði. Þetta eru Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri og Landnámssetur í Borgarnesi.
 
 
 
 
Um er að ræða langtímasamninga um rekstrarframlög til þriggja ára og í þeim er kveðið á um árlegt framlag sveitarfélagsins á þeim tíma, alls um 12 milljónir króna. Þetta er óskilyrt rekstrarframlag í samræmi við viðmiðunarreglur um slík framlög til menningarstofnana sem samþykktar voru í sveitarstjórn Borgarbyggðar í janúar s.l.
Gerð samninga sem þessara er ákveðin nýjung, en markmiðið með þeim er að festa í sessi ákveðið samskiptaferli milli sveitarfélags og stofnana, og að daga fram áherslur vegna stefnumótunar og áætlanagerðar. Auk þess er í samningunum kveðið á um aukin samskipti viðkomandi stofnana og sveitarfélagsins. Hér er því á ferðinni breytt verklag þar sem samningarnir auka rekstraröryggi stofnananna og auðvelda áætlanagerð auk þess sem þeir skapa betri grundvöll til faglegrar vinnu við fjárhagsáætlanagerð sveitarfélagsins.
Í samningunum er sérstakt ákvæði um aðgengi nemenda grunnskóla sveitarfélagsins að fræðslu og miðlun hjá viðkomandi menningarstofnunum og er það í samræmi við menningarstefnu Borgarbyggðar sem samþykkt var í sveitarstjórn síðla árs 2007. Þetta er eina ákvæði samninganna sem kveður á um skyldur stofnananna á móti árlegu rekstrarframlagi.
 
Eftirtaldir undirrituðu samningana: Bjarni Guðmundsson fyrir hönd Landbúnaðarsafns Íslands, Kjartan Ragnarsson fyrir hönd Landnámsseturs Íslands og Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri fyrir hönd Borgarbyggðar.
Ljósmyndir með frétt: Helgi Helgason

Share: