Til bifreiðaeigenda

apríl 18, 2007
Borgarbyggð hefur gert samning við Vöku ehf, vegna bílahreinsana, aksturs, geymslu, förgunar og uppboða á bílum sem lagt er númerslausum innan marka sveitarfélagsins.
Á næstunni mun hefjast vinna við þessa hreinsun þar sem númerslausar bifreiðar á lóðum og löndum sveitarfélagsins verða fjarlægðar. Hreinsunarvinnan mun vara næstu árin meðan samningurinn við Vöku er í gildi.
Í hreinsunarvinnunni felst að skrifleg áminning verður límd á númerslausar bifreiðar, þar sem viðkomandi eigendum er gefinn viku frestur til að fjarlægja þær. Að þeim tíma liðnum mun Vaka ehf, fjarlægja viðkomandi bifreiðar á kostnað eigenda sinna og draga þær í Vökuportið í Reykjavík. Vaka sendir bifreiðaeigendunum bréf þar sem þeir verða áminntir um gjaldfallinn kostnað og hvattir til að ganga frá sínum málum.
Sé bifreið leyst út af eiganda greiðir sá hinn sami fyrir kostnað sem á bifreiðina hefur fallið.
Kostnaður við að fjarlægja eina bifreið felst í flutningi hennar til Reykjavíkur ásamt veggjaldi í Hvalfjarðargöng, geymslugjaldi pr. dag í Vökuportinu, ásamt innskriftargjaldi.
Ef bifreiðaeigendur gera ekkert í málinu, þrátt fyrir tilmæli þar um, verður bifreiðinni annað hvort fargað eða hún seld á uppboði.
Borgarbyggð vill minna á skilagjald á bifreiðum skv. lögum um úrvinnslugjald nr. 162/2002 með síðari breytingum.
Skilagjald á bifreið sem komið er með á Gámastöðina í Borgarnesi er nú 15.000 kr en þetta skilagjald gildir einungis fyrir bifreiðar árgerð 1980 og yngri og sem greitt hefur verið úrvinnslugjald af.
 
Framkvæmdasvið
 

Share: