Samstarf vegna viðburða á Vesturlandi

apríl 23, 2021
Featured image for “Samstarf vegna viðburða á Vesturlandi”

Sóknaráætlun Vesturlands hefur ákveðið að styðja við viðburðadagskrá á Vesturlandi 2021. Þetta verkefni er unnið í framhaldi af svipuðu verkefni sem hleypt var af stokkunum með stuttum fyrirvara í fyrra og skipti miklu máli fyrir viðburðahald á Vesturlandi sumarið 2020.

Verkefninu er ætlað að styðja bæði við skapandi greinar og listafólk á Vesturlandi en einnig að efla menningarstarf og listviðburði til að laða fólk að landshlutanum og styðja þannig við ferðaþjónustu á svæðinu og bæta lífsgæði íbúa sem geta notið viðburðanna.

Verkefnið er sett upp sem samstarfsverkefni en ekki styrktarsjóður, þar sem þeir sem hafa áhuga á að setja upp einsskiptis viðburð á Vesturlandi geta óskað eftir samstarfi við SSV/MSV varðandi það viðburðahald.

Samstarfið felst í því að Markaðsstofa Vesturlands (MSV) skráir viðburðinn í viðburðadagatal Vesturlands og kynnir hann á sínum miðlum. En einnig er hægt að óska eftir fjárframlagi til viðburðahaldsins í samstarfssamningnum.

Stýrihópur SSV/MSV um viðburðadagskrá á Vesturlandi 2021 mun fjalla um öll verkefni sem óskað er eftir samstarfi um og gera tillögu að samstarfssamningi vegna þeirra viðburða sem falla að þessu verkefni.

Hvort sem aðili starfar í skapandi greinum, ferðaþjónustu eða vill bara leggja sitt að mörkum inn í viðburðadagskrána á Vesturlandi, þá getur hann fyllt út beiðni um samstarf, þar sem gerð er grein fyrir þeim viðburði sem viðkomandi vill standa fyrir.

Tillagan er þá tekin til umfjöllunar inn í viðburðadagskrár teymi SSV/MSV þar sem tekin er ákvörðun varðandi mögulegt samstarf um viðburðinn.

Hér er einungis um að ræða samstarf um litla einskiptis viðburði (pop up viðburði).

Sé um stærri viðburði að ræða er reiknað með að þeir hafi eða geti sótt um styrk í Menningarsjóð Vesturlands og eru þeir því ekki teknir til umfjöllunar í þessu verkefni.

Ramminn um samstarfssamningana er:

 • Einungis eru gerðir samstarfssamningar um einskiptis viðburði (pop up viðburð).
 • Viðburðirnir skulu fara fram á Vesturlandi á tímabilinu 15. apr. – 15. nóv. 2021.

 • Allir samstarfssamningar fela í sér að MSV kynnir viðkomandi viðburð:
 • Setji viðburðinn inn í viðburðardagatal Vesturlands
  • Deili auglýsingum og facebook viðburði á samfélagsmiðlum
  • Auk þess er möguleiki fyrir framkvæmdaaðila viðburðarins að óska eftir fjárramlagi til viðburðahaldsins í samstarfssamningnum.

 • Fjárframlagið getur verið á bilinu 25. – 100. þúsund fyrir hvern viðburð.
 • Hver aðili getur sótt um samstarf um fleiri en einn viðburð á ári.
 • Aldrei eru gerðir samningar við sama aðila um hærri fjárupphæð en 500. þús. á ári.

 Nánari upplýsingar um umgjörð verkefnisins má finna hér:
VIÐMIÐ VEGNA VIÐBURÐIR Á VESTURLANDI

Menningarfulltrúi Vesturlands og forstöðumaður Markaðsstofu Vesturlands bera ábyrgð á verkefninu „Viðburðir á Vesturlandi“ f.h. SSV og MSV


Share: