Margt að gerast í Tónlistarskóla Borgarfjarðar

apríl 23, 2021
Featured image for “Margt að gerast í Tónlistarskóla Borgarfjarðar”

Starf Tónlistarskóla Borgarfjarðar hefur fengið að vera nokkuð hefðbundið í vetur þrátt fyrir takmarkanir. Um þessar mundir eru tónlistarskólar í landinu að undirbúa Net-Nótuna, en Nótan er uppskeruhátíð tónlistarskólanna og hefur verið hluti af skólastarfinu síðastliðin 10 ár. Í fyrravetur varð að sleppa uppskeruhátíðinni vegna Covid en í ár verður Net-Nóta haldin þar sem tónlistarskólarnir í landinu senda inn myndskeið og verður hluti af þeim sýndur á sjónvarpsstöðinni N4.

Einnig hafa nemendur verið að vinna með ljóð Þorsteins frá Hamri í samstarfi við Safnahús Borgarfjarðar. Vegna samkomutakmarka voru ekki tónleikar á sumardaginn fyrsta eins og venjan hefur verið. Stefnan er því að taka upp nokkur atriði og birta á heimasíðu Safnahússins og ef til vill fleiri miðlum.

Söngleikjadeildin er að vinna með söngleikinn Snjallhvít og gimsteinagrafararnir og er ætlunin að nemendur hafi sýningu um næstu mánaðarmót. Vegna samkomutakmarkanna verður ekki mögulegt að hafa opna sýningu. Sagan er byggð á Disney-myndinni um Mjallhvíti og dvergana sjö, með ýmsum tilbrigðum, en sönglögin eru flest úr Disney myndinni. Samsöngur og samspil er mjög þroskandi fyrir nemendur og nauðsynlegur þáttur í skólastarfinu.

Starf vetrarins endar síðan með prófum og tónleikum ef samkomutakmarkanir leyfa eftir miðjan maí.

 


Share: