Samningar um stækkun Dvalarheimilisins í Borgarnesi undirritaðir

maí 26, 2010

Í gær voru undirritaðir samningar á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi vegna byggingar við heimilið. Fyrirhugað er að byggja 32 hjúkrunarrými og verður nýbyggingin um 2500 fermetrar á þremur hæðum en grunnflöturinn 850 fermetrar. Fyrst skrifuðu Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra og Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri undir samning um að Borgarbyggð taki að sér verkefnið fyrir hönd ríkisins. Borgarbyggð verður framkvæmdaaðili en að dvalarheimilinu standa auk Borgarbyggðar, Skorradalshreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur og Samband borgfirskra kvenna.
Eftir að Borgarbyggð hafði formlega tekið við verkefninu undirrtiuðu Páll sveitarstjóri og Magnús B. Jónsson formaður stjórnar DAB samning á milli Borgarbyggðar og stjórnar Dvalarheimilis aldraðra um umsjón með uppbyggingu og byggingastjórnun.
Með undirritunum þessum lýkur löngu og ströngu undirbúningsferli og nú hillir loks undir löngu tímanbærar endurbætur á húsakosti Dvalarheimilisins. Stefnt er að því að fyrsta skóflustungan verði tekin þann 10. júní næstkomandi.
Heimilisfólk og starfsmenn, ásamt góðum gestum, fögnuðu þessum áfanga með rjómatertu og tilheyrandi.
Meðfylgjandi myndir tók Björn Bjarki Þorsteinsson.
 

 

Share: