Samstarfshópur um forvarnir í Borgarbyggð stóð í gær fyrir skyndikönnun á sölu á tóbaki til ungmenna undir 18 ára aldri. Unglingar undir lögaldri fóru á fimm staði í Borgarnesi og báðu um sígarettupakka. Í verslun Hyrnunnar, afgreiðslustöðum N1, Shell og Olís var unglingunum neitað um afgreiðslu, en í Samkaup voru sígaretturnar afgreiddar. Enginn þeirra sem vann við tóbaksafgreiðslu var undir 18 ára aldri. Þrátt fyrir þessa einu undantekningu telur samstarfshópurinn um góðan árangur að ræða, einkum ef litið er til þess að fyrir nokkrum árum vantaði mikið upp á að þessi mál væru í lagi í Borgarnesi.
Ætlunin er að vera í gangi með slíkar skyndikannanir í sumar. Munu þær einnig taka til sölu á áfengi og ná til allra sölustaða í Borgarbyggð.
Rétt er að fram komi að hvorki Bónus né Hagkaup í Borgarnesi selja tóbak og telur samstarfhópurinn það til mikillar fyrirmyndar.