Mímir ungmennahús opnar í MB

september 25, 2009
Síðustu tvær vikur hafa ungmenni í Mími ásamt ungmennum í Nemendafélagi MB unnið sameiginlega að flutningi ungmennahússins frá Kveldúlfsgötu 2b yfir götuna í frábæra aðstöðu sem er á neðri hæð menntaskólans.
Verður þetta vonandi framtíðar ungmennahús sveitarfélagsins ásamt því að þar fer fram starfsemi nemendafélags menntaskólans.
Undirbúningur hefur gengið vel og samstarf stjórna með miklum ágætum. Einnig hefur ungmennaráð sveitarfélagsins komið að hugmyndavinnu. Áætlað er að á skólatíma hafi nemendur menntaskólans aðstöðuna en á kvöldin þá verði þetta ungmennahús fyrir öll ungmenni í sveitarfélaginu á aldrinum 16 – 25 ára og þá sjái húsráð ungmennahúss um starfið sem fram fer.
 
Opnunarhátíð verður haldin í nýja ungmennahúsinu þriðjudaginn 29. sept. n.k. kl. 20.00 og verður þá nýja aðstaðan vígð með viðhöfn og eru allir hjartanlega velkomnir. Flutt verða ávörp í tilefni dagsins og opnuð ljósmyndasýning Rakelar Ernu Skarphéðinsdóttur á listavegg ungmennahússins.
Öll ungmenni velkomin ásamt foreldrum og öðrum þeim sem vilja koma og gleðjast með ungmennum okkar að þessu tilefni. Gríðarlega margir möguleikar til félagsstarfs ungmenna eru þarna að opnast ekki síst vegna samstarfs og tengingar við menningarsalinn uppi vegna stærri uppákoma.
 
Ungmenni í Borgarbyggð til hamingju með nýju aðstöðuna, nú er það ykkar að sjá til þess að innra starfið blómstri og verði enn öflugra en áður.
ij.
 

Share: