Menningarsjóður auglýsir eftir styrkumsóknum

janúar 26, 2009
Stjórn Menningarsjóðs Borgarbyggðar auglýsir nú eftir umsóknum um styrki. Sjóðurinn var upprunalega stofnaður sem Menningarsjóður Borgarness hinn 22. mars 1967, í tilefni af 100 ára verslunarafmæli bæjarins. Tilgangur hans var m.a. að styrkja menningarmál í Borgarnesi. Ýmsar breytingar hafa síðan verið gerðar á skipulagsskrá og úthlutunarreglum sjóðsins, en lengst af hefur menningarnefnd farið með stjórn hans. Í nýrri skipulagskrá sem samþykkt er á árinu 2007 er gert ráð fyrir að sjóðurinn heiti Menningarsjóður Borgarbyggðar, hann hafi sérstaka stjórn og að árlegt framlag til hans sé hluti af fjárlögum sveitarfélagsins.
Tilgangur sjóðsins er að efla menningu í Borgarbyggð. Í menningarstefnu sveitarfélagsins er kveðið á um að hann skuli leggja sérstaka rækt við grasrótina í menningarlífi á svæðinu. Styrkir sjóðsins eru verkefnatengdir og áhersla lögð á að þau verkefni sem styrk hljóta séu aðgengileg sem flestum íbúum sveitarfélagsins sem og gestum.
Umsóknir skulu berast til menningarfulltrúa, ráðhúsi Borgarbyggðar við Borgarbraut 14, 310 Borgarnesi, í síðasta lagi 28. febrúar 2009. Umsóknareyðublað má finna á www.borgarbyggd.is /stjórnsýsla/umsóknir. Umsókn skal fylgjasundurliðuð kostnaðarætlun fyrir verkefnið ásamt greinagerð. Fyrir árslok afhendist sjóðsstjórn síðan skýrsla um nýtingu styrksins.
Á árinu 2008 var úthlutað tæpum þremur milljónum króna úr sjóðnum auk sérstakrar heiðursviðurkenningar.
 
 

Share: