Ljóð unga fólksins í Safnahúsi Borgarfjarðar

nóvember 19, 2007

Það var líf og fjör í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi s.l. föstudag þegar þangað komu börn og fullorðnir víða að úr sveitarfélaginu vegna ljóðasýningar nemenda fimmtu bekkja grunnskóla Borgarbyggðar. Á veggjum voru frumsamin ljóð nemenda úr Varmalandsskóla, Grunnskóla Borgarfjarðar, Laugagerðisskóla og Grunnskólanum í Borgarnesi. Ljóðin voru myndskreytt og sérstaka athygli vöktu ljóð krakka úr Varmalandsskóla, en kvæðin voru falin á bak við stóra tungu – íslenska tungu. Gestir urðu því að lyfta tungunni til að geta séð skáldskapinn.

Við þetta tækifæri var farið m.a. í spurningakeppni og leiki og m.a.keppt í limbói við góðar undirtektir.
Samhliða ljóðasýningunni var opnuð lítil sýning á verkum Halldóru B. Björnsson rithöfundar frá Grafardal en hún hefði orðið hundrað ára á þessu ári. Af því tilefni las Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður upp kafla úr bókinni ,,Eitt er það land” eftir Halldóru, en sú bók geymir bernskuminningar hennar. Halldóra var ein átta systkina frá Grafardal. Öll ortu þau ljóð, og út hafa komið ljóðabækur eftir sex þeirra. Halldóra skrifaði einnig nýstárlegar smásögur en hvað þekktust er hún kannski fyrir þýðingu sína á Bjólfskviðu sem kom út að henni látinni 1983. Halldóra var því sannarlega fjölbreyttur höfundur.
Báðar sýningarnar fá að standa fram til jóla og eru gestir boðnir hjartanlega velkomnir í Safnahús til að njóta þeirra í kyrrð aðventunnar framundan.
Afgreiðslutímar í Safnahúsi eru frá kl. 13-18 alla virka daga, en einnig er opið aukalega á milli 18 og 20 tvö kvöld í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum.
 
Ljósmyndir með frétt: Elín Elísabet Einarsdóttir
 

Share: