Borgfirðingar hafa úr mörgum tónlistarviðburðum að velja um helgina án þess að þurfa að fara langt yfir lækinn til að sækja þá. Þar má nefna tónleika hljómsveitarinnar ,,Fimm í Tangó”, Rökkurkórsins úr Skagafirði og Fífilbrekkuhópsins. Valið verður erfitt því allir tónleikarnir eru á sama tíma. Þessum þrennum tónleikum er lýst frekar hér fyrir neðan.
Fimm í Tangó.
Haldnir í Landnámssetrinu í Borgarnesi kl. 16 sunnudaginn 18. nóvember.
Finnsk tangótónlist er í sérstöku uppáhaldi hjá hljómsveitarmeðlimum Fimm í Tangó. Tatu Kantomaa harmóníkuleikari hefur útsett lög fyrir Fimm í Tangó, sem og Haraldur V. Sveinbjörnsson sem einnig hefur samið tangó sérstaklega fyrir hópinn.
Meðlimir Fimm í Tangó eru Ágúst Ólafsson söngvari, Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari, Íris Dögg Gísladóttir fiðluleikari, Kristín Lárusdóttir sellóleikari og Tatu Kantomaa harmóníkuleikari.
Rökkurkórinn úr Skagafirði
Haldnir í Logalandi í Reykholtsdal kl. 16 sunnudaginn 18. nóvember.
Sönstjóri kórsins er Sveinn Sigurbjörnsson. Undirleikari er Thomas Higgerson og einsöng syngur Valborg Hjálmarsdóttir.
Fífilbrekkuhópurinn
Haldnir í Reykholtskirkju kl. 16 sunnudaginn 18. nóvember.
Þeir eru á vegum Tónlistarfélags Borgarfjarðar
Fífilbrekka, gróin grund….
Dagskrá með lögum Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Jónasar
Hallgrímssonar á tvöhundruðasta afmælisári skáldsins.
Söngbók Atla Heimis telur nú 26 lög og mun Fífilbrekkuhópurinn blaða í
gegnum hana alla á tónleikunum í Reyholtskirkju. Hópnum til fulltingis er Arnar Jónsson leikari sem tengir lögin lífsferli Jónasar.
Í bakgrunni verða ljósmyndir Þorgerðar Gunnarsdóttur og aðrar myndir frá slóðum skáldsins sem hún hefur valið.
Jónas sendi Dalvísu til Fjölnisfélagsins í Kaupmannahöfn í janúar 1844.
Á uppkastið skrifaði Jónas meðal annars: “Ég ætl´að biðj ukkur um að láta búa til fallegt lag, ekki of dýrt við vísuna mína” og í hreinritinu stendur: “Það er annars ógjörningur að eiga ekki lög til að kveða þess konar vísur undir; svona komast þær aldrei inn hjá alþýðu”.
Flytjendur eru:
Arnar Jónsson, leikari
Hulda Björk Garðarsdóttir, sópran
Eyjólfur Eyjólfsson, tenór
Sigrún Eðvaldsdóttir, fiðla
Sigurður Ingvi Snorrason, klarínetta
Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanó
Hávarður Tryggvason, kontrabassi.
Mynd með frétt sýnir hljómsveitina Fimm í tangó