Landvernd stóð fyrir ráðstefnu um Skóla á grænni grein í byrjun febrúar, en það er stærsta verkefni í menntun til sjálfbærni á Íslandi og í heiminum öllum. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra ávörpuðu ráðstefnugestina og veittu tveimur skólum sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa unnið flesta Grænfána. Hvanneyrardeild Grunnskóla Borgarfjarðar var einn þeirra en hann hefur verið Skóli á grænni grein frá því að verkefnið hóf göngu sína hér á landi árið 2000. Tóku Ingibjörg Inga skólastjóri og Helga Jensína deildarstjóri á Hvanneyri á móti viðurkenningu úr hendi Bjartar Ólafsdóttur umhverfisráðherra.
Skólar á grænni grein er mikilvægt verkefni fyrir innleiðingu sjálfbærni í skólastarfi en það styður við alla grunnþætti aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem sjálfbærni felur í sér jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og velferð.
Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni sem hefur það að markmiði að að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum. Skólar ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Þegar því marki er náð fá skólarnir að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.