Hátíðin ,,Eftir Mýraelda”

apríl 7, 2008
Búnaðarfélag Mýramanna stóð fyrir hátíð í Lyngbrekku sem nefndist ,,Eftir Mýraelda” frá fimmtudagskvöldinu 3. apríl til laugardagsins 5. apríl til að minnast þess að tvö ár eru nú liðin frá Mýraeldunum miklu. Búnaðarfélag Mýramanna stefnir að því að halda slíka hátíð annað hvert ár héðan í frá. Hátíðin hófst með því að landbúnaðarráðherra og formaður bændasamtakanna fluttu framsöguerindi. Um 20 aðilar kynntu landbúnaðarvörur, handverk sitt og þjónustu fyrir utan félagsheimilið við Lyngbrekku í blíðskaparveðri. Hið glæsilega fjós í Þverholtum var opið hátíðardagana og skrifuðu sig 450 manns þar í gestabók. Talið er að ríflega fimmhundruð manns hafi sótt hátíðana.
Nokkrir vísindamenn kynntu rannsóknir sínar á áhrifum eldana á gróður og lífríki á Mýrum fyrir ári síðan í Lyngbrekku og á hátíðana nú mættu þeir Hilmar Malmquist frá Náttúrustofu Kópavogs og Erlingur Ólafsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands fyrir hönd rannsóknarhópsins og dreifðu m.a. skýrslu með niðurstöðum rannsóknanna. Kynnið ykkur m.a. efni rannsóknanna með því að tengjast hér inn á vefsíðu um Mýraeldana á heimasíðu Borgarbyggðar. Kærkomið væri að fá myndir og lýsingar af mannlífi og náttúru á tímum Mýraeldanna. Vinsamlegast sendið efni til Bjargar Gunnarsdóttur umhverfis- og kynningarfulltrúa í gegnum netfangið bjorg@borgarbyggd.is.
 
Myndir: Magnús Magnússon

Share: