Fyrsta skóflustunga tekin að nýju íbúðarhverfi í Bjargslandi

mars 11, 2021
Featured image for “Fyrsta skóflustunga tekin að nýju íbúðarhverfi í Bjargslandi”

Byggðarráð Borgarbyggðar og fulltrúar þriggja verktakafyrirtækja í Borgarbyggð undirrituðu viljayfirlýsingu þann 8. janúar 2020 um að fara í samstarf um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Bjargslandi í Borgarnesi. Nú ári seinna er búið að stofna hlutafélag sem heitir Slatti ehf. og er í eigu þessara þriggja fyrirtækja sem koma til með að halda utan um verkefnið. Einnig er rammasamningur tilbúinn og hann undirritaður í dag, 11. mars.

Athöfn átti sér stað fyrr í dag þar sem tekin var fyrsta skóflustunga að fyrsta áfanga nýs íbúðarhverfis í Bjargslandi. Viðstödd voru Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar, Lilja Björg Ágústsdóttir, Magnús Smári Snorrason, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir og Guðveig Eyglóardóttir fulltrúar byggðarráðs, Ólafur Sveinsson, stjórnarformaður Slatta ehf. og fulltrúar þriggja verktakafyrirtækja í Borgarbyggð, þeir Óskar Sigvaldsson fyrir hönd Borgarverks ehf., Eiríkur Ingólfsson og Ottó Ólafsson fyrir hönd Eiríks Ingólfssonar ehf. og Hörður Pétursson fyrir hönd Steypustöðvarinnar.

Markmið samningsins er að auka framboð nýs og fjölbreytts húsnæðis í Borgarnesi og leitast þannig við að efla og þróa byggð í Borgarbyggð til hagsbóta fyrir sveitarfélagið, íbúa þess og atvinnulíf á svæðinu. Með undirritun samningsins eru framkvæmdaraðilar að skuldbinda sig til þess að sjá um uppbyggingu svæðisins í heild sinni, en um er að ræða heilt íbúðahverfi með fjölbýlis-, par- og raðhúsum. Jafnframt liggur fyrir að hluti lóða í hverfinu verður boðinn til úthlutunar á almennum markaði en fyrirkomulag úthlutunar verður auglýst síðar. Framlag sveitarfélagsins felst meðal annars í því að veita vilyrði fyrir úthlutun lóða á tilgreindu deiliskipulagssvæði.

Það er ánægjulegt að sjá þetta samstarfsverkefni verða að veruleika, enda mikil lyftistöng fyrir Borgarbyggð. Blómleg uppbygging í Bjargslandi mun hafa jákvæð áhrif á sveitarfélagið í heild sinni og vonir standa til þess að þetta verkefni verði til þess að fleiri fyrirtæki fari af stað með byggingarframkvæmdir í Borgarbyggð.

Áætlað er að framkvæmdir fyrsta áfangans hefjist um leið og allar leyfisveitingar liggja fyrir. 


Share: