Fyrirkomulag á skólahaldi og frístund vikuna 30. mars – 3. apríl 2020

mars 27, 2020
Featured image for “Fyrirkomulag á skólahaldi og frístund vikuna 30. mars – 3. apríl 2020”

Í dag hefur staðið yfir skipulagning á skólastarfi fyrir vikuna 30. mars til 3. apríl á meðan á samkomubanni stendur. Leik- og grunnskólar styðjast við leiðbeiningar frá Almannavörnum, Embætti landlæknis, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambandi Íslands meðal annars um hópastærð og þrif. Einnig styðjast skólarnir við viðbragðsáætlanir vegna fjarveru starfsfólks og kennara vegna veikinda og annarra forfalla. Getur skipulag starfsins breyst á næstu vikum með skömmum fyrirvara. Skólastjórnendur og kennarar senda jafnóðum upplýsingar til foreldra ef breytingar verða.

Forgangslisti Almannavarna vegna neyðarstigs er í gildi og hefur verðið unnið að skipulagi skólastarfs þessa viku samkvæmt honum.

Hópar í grunnskólum mega ekki telja fleiri en 20 börn í einu og skal forðast eins og hægt er að þessir hópar blandist ekki yfir daginn. Hópar í leikskólum eiga að telja 4-6 börn með sömum tilmælum.

Aðstæður eru ólíkar í skólum Borgarbyggðar og munu skólastjórnendur hvers skóla senda tilmæli og skipulag síns skóla á foreldra í dag.

Grunnskóli Borgarfjarðar

Skólastarf í Grunnskóla Borgarfjarðar verður með sama hætti og verið hefur.

Á Varmalandi er skólastarfið hefðbundið og verður nemendum deilt niður á svæði. Fimmtudagar eru örlítið styttri.

Skólastarf í unglingadeild GBF-Kleppjárnsreykjum er áfram skert. Hver nemandi mætir annan hvern dag. Kennsla er órofin á yngsta stigi og miðstigi.

Skólastarf á Hvanneyri er hefðbundið og er nemendum deilt í hópa og á svæði.

Frístund á Hvanneyri er hefðbundin, börnunum er skipt í tvo hópa og eru hóparnir aðskildir. Börnin mæta með nesti að heiman.

Verði frekari forföll á starfsfólki og kennurum í vikunni munu skólastjórnendur grípa til frekari fjarkennslu.

Grunnskólinn í Borgarnesi

Einverjar breytingar verða varðandi hópaskiptingu í Grunnskólanum í Borgarnesi og verða kennarar í sambandi við foreldra um nánari útfærslu.

Skólastarf er hefðbundið í 1. – 4. bekk. Hópar verða sameinaðir í næstu viku.

Fyrirkomulag í 5. og 6. bekkur er óbreytt frá síðustu viku.

Gert er ráð fyrir að 7.-10. bekkur komi í skólann annan hvern dag, mánudag, miðvikudag og föstudag. A og B hópar í hverjum árgangi verða sameinaðir. Þriðjudag og fimmtudag sinna kennarar eingöngu fjarkennslu.

Vegna breytinga á vali og á íþróttum, sundi og list-og verkgreinum er kennslu þjappað og lýkur skóladegi aðeins fyrr. Skólabílar munu því fara kl. 13:20 og 13:35 innanbæjar og sveitabílar kl. 13:35.

Frístund í Borgarnesi er nú í boði fyrir 1. og 2. bekk, börnunum er skipt í tvo hópa og eru þeir aðskildir. Einn hópur er í UMSB húsinu og einn hópur í Skátahúsinu. Börnin mæta með nesti að heiman.

Leikskólar

Andabær, Hnoðraból og Hraunborg munu starfa með sama sniði og í síðustu viku. Leikskólarnir fylgja því sem allflestir leikskólar á landinu gera. Börn foreldra á forgangslista Almannavarna vegna neyðarstigs ganga fyrir.

Klettaborg verður lokaður fram yfir páska vegna Covid-19 smits.

Ugluklettur opnar fyrir börn foreldra á forgangslista Almannavarna á mánudaginn.

Mikið návígi er hjá börnunum í leikskólunum og því mikilvægt að huga vel að fjarlægð og sóttvörnum.

Tónlistarskóli Borgarfjarðar

Tónlistarskólinn mun halda úti starfsemi í hljóðfærakennslu/söngkennslu í fjarkennslu. Stærri hópatímar eins og hljómsveitartímar, hópæfingar, tónfundir og tónfræðitímar falla niður.

Fyrirkomulagið verður þannig að hver og einn kennari verður í sambandi við sína nemendur gegnum vefmiðil og í sameiningu finna þeir aðferð og tíma sem henta.

Íþróttir og tómstundir

Frístundaakstur og íþróttaæfingar falla niður í þessari viku.

Nánari upplýsingar um íþróttastarf er hægt að finn á heimasíðu UMSB .

Félagsmiðstöðin Óðal hefur fært sig yfir frá hefðbundnum opnunum yfir í stafrænar opnanir. Fylgist með á Instagram undir odal310.

Samkomubannið hefur verið sett til 13. apríl n.k.. Enn og aftur þökkum við foreldrum fyrir að sýna viðbrögðum skólastjórnenda og kennara mikinn skilning.

Skipulag á skólastarfi verður endurmetið á föstudögum fyrir komandi viku á meðan á samkomubanni stendur.

Páskafrí hefst í grunnskólum mánudaginn 6. apríl.

Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að leita upplýsinga hjá viðkomandi skólastjóra/forstöðumanni ef spurningar vakna.

 

 


Share: