Framkvæmdir í júní

júlí 2, 2021
Featured image for “Framkvæmdir í júní”

Sumarið hefur farið vel af stað í Borgarbyggð og það er í nægu að snúast hjá starfsfólki áhaldahússins og vinnuskólanum við fegrun umhverfis og í öðrum skemmtilegum verkefnum.

Í byrjun sumars aðstoðaði starfsfólk áhaldahússins nemendur á Hvanneyri að setja upp aparólu á skólalóðinni. Verkefnið og samstarfið vakti mikla lukku og ljóst er að rólan nýtur mikilla vinsæla meðal barna á svæðinu.

Ný hellulögn var lögð á gangstétt milli Borgarbrautar 47 og 55 í Borgarnesi og var það fyrirtækið Sigur-garðar sf. sem sá um það verk.

Skallagrímsgarður er kominn í sumarbúning og er það Steinunn Pálsdóttir sem sér um umhirðu garðsins í ár líkt og undanfarin ár. Það er óhætt að segja að garðurinn sé glæsilegur um þessar mundir og vekur ávallt jafn mikla lukku meðal íbúa og gesta.

Samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir göngustíg meðfram strandlengjunni í Borgarnesi. Slíkt verkefni er langtímaverkefni og á þessu ári er unnið að hluta stígar við Borgarvoginn. Með strandstíg er aðgengi íbúa og almennings að ströndinni bætt verulega. Stígarnir gefa aukin tækifæri til náttúruskoðunar og upplifunar auk þess sem þeir gagnast vel til umhverfisfræðslu. Aformað er að setja upp fræðsluskilti um fugla við stíginn.

Vinnuhópur áhaldahússins vinnur hörðum höndum að slætti í Borgarbyggð ásamt fleiri verkefnum víðsvegar um sveitarfélagið og er þeim forgangsraðað eins og frekast er unnt.

Vinnuskólinn vinnur að sama skapi að fegrun í sveitarfélaginu og hafa gert það með stakri prýði. Vakin er athygli íbúa á því að sýna ítrustu varúð þegar börnin eru að störfum nálægt umferðargötum.

Nemendur í 5. bekk Grunnskóla Borgarfjarðar – Hvanneyrardeild unnu verkefni í heilsufræði og afrakstur þess verkefnis eru hreyfistöðvaskilti þar sem almenningur getur skannað QR kóða og fengið leiðbeiningar um æfingu á hverjum stað. Skiltin eru staðsett á nokkrum stöðum á Hvanneyri og bjóða upp á ný tækifæri í gönguferðum um svæðið.

Hreinsunarátaki í dreifbýli er nýlokið þar sem íbúar í dreifbýli fengu aðgang að gámum fyrir nokkra úrgangsflokka. Gámarnir voru vel nýttir og gekk átakið vel.

Starfsfólk Borgarbyggðar leggur sig fram við að eiga gott samstarf við íbúa. Íbúar eru því hvattir til að senda inn ábendingar sem þeir kunna að hafa varðandi þjónustu, lagfæringar í umhverfi eða aðbúnað í sveitarfélaginu í gegnum ábendingahnappinn.

 

 

.

 

 


Share: