Fjölsóttir ferðamannastaðir í Borgarbyggð styrktir

mars 31, 2008
Nýverið tilkynnti Ferðamálastofa hverjir hljóta styrk til úrbóta á ferðamannastöðum, þetta árið. Alls voru veittar ríflega 54 milj. kr. og fengu þrjú verkefni í Borgarbyggð, myndarlegan stuðning.
Sveitarfélagið Borgarbyggð fær 2,5 milj. kr. til að bæta stíga og aðra aðstöðu á og við Grábrók, en svæðið hefur látið verulega á sjá, á undanförnum árum. Hreðavatn ehf. fær 3 milj. kr. í framhaldsstyrk til að bæta alla aðkomu og aðstöðu við Glanna í Norðurá og draga þannig úr umhverfisspjöllum vegna átroðnings. Og Áhugahópur um aðgengismál fær 850 þús. kr. til að bæta aðgengi fatlaðra við Hraunfossa. Þessi peningur verður fyrst og fremst nýttur til að gera stíginn frá bílastæði að útsýnispalli, færan hjólastólum.
Borgarbyggð er mikið heimsótt af ferðamönnum og fjölsóttustu náttúruperlur héraðsins því undir miklu álagi. Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnuvegur í héraðinu og hljóta allir Borgfirðingar að vilja veg hennar sem mestan. Það má þó aldrei verða á kosnað umhverfisins og því mikið gleðiefni að hægt verður að ráðast í þessi mikilvægu verkefni. Ástæða er til að hvetja alla sem aðstöðu hafa til, að halda vöku sinni hvað varðar ástand náttúruperlna og leita leiða til að byrgja alla brunna áður en barn dettur ofan í þá.
 
Mynd: Björg Gunnarsdóttir
 

Share: