Fjögur tonn af rafgeymum í óreiðu

mars 1, 2007
Formaður umhverfisnefndar, Björk Harðardóttir og umhverfisfulltrúi Borgarbyggðar, Björg Gunnarsdóttir, skoðuðu allar gámastöðvar sveitarfélagsins í síðustu viku.
 
Ástæða ferðarinnar var vilji sveitarstjórnar til að bæta skipulag og frágang gámasvæða í sveitarfélaginu. Athygli vakti að töluvert var um rafgeyma á flestum svæðanna. Gámaþjónustu Vesturlands var strax tilkynnt um þetta og hóf starfsmaður frá þeim þá þegar hreinsun. Þegar þetta er skrifað hafa safnast um 4 tonn af rafgeymum og er hreinsunarstarfinu þó alls ekki lokið.
Gámastöðin í Borgarnesi er eini söfnunarsaður spilliefna í sveitarfélaginu. Verið er að leita leiða til að bæta þá þjónustu, en þar til það hefur tekist, er fólk vinsamlegast beðið um að koma rafgeymum og öðrum mengandi úrgangi, þangað.
 
Ljósmynd af rafgeymi við gámasvæði: Björk Harðardóttir

Share: