Borgarnes í brennidepli á RÚV á afmælisdaginn

mars 21, 2007
Eins og flestum ætti að vera orðið kunnugt um þá fagnar Borgarnes 140 ára verslunarafmæli á morgun, 22. mars. Dagurinn er í raun jafnframt afmælisdagur byggðar í Borgarnesi þar sem það var í kjölfar þess að staðurinn fékk löggildingu sem verslunarstaður að fólk settist hér að. Í tilefni af þessum tímamótum verður Borgarnes í sviðsljósinu hjá RÚV í dag.
Klukkan 11.00 verður viðtal við þá Finnboga Rögnvaldsson og Einar Pálsson í Samfélaginu í nærmynd á Rás 1. Gísli Einarsson mun rekja úr þeim garnirnar varðandi verslunarsögu Borgarness og skemmtilegar sögur af mönnum sem tengjast versluninni. Finnbogi hefur sérhæft sig í hinni “hefðbundnu” sagnfræði á meðan Einar er hafsjór af skemmtisögum úr versluninni, en hefur hann staðið bak við búðarborðið í áratugi.
Seinnipartinn verður Rás 2 í Borgarnesi þar sem Síðdegisútvarpið verður sent út frá Landnámssetrinu. Enn og aftur er það Gísli Einarsson sem stýrir skútunni. Þar fær hann til sín ýmsa góða gesti í tilefni dagsins, bæði fólk sem tengist verslun í Borgarnesi með einhverjum hætti og aðra henni ótengda sem væntanlega ræða þá um eitthvað allt annað. Væntanlega fær Tónlistarskólinn einnig að njóta sín í útvarpi allra landsmanna í Síðdegisútvarpinu en hann var einmitt stofnaður í tilefni af 100 ára afmæli Borgarness og fagnar því 40 ára afmæli sínu á þessu ári. Útsendingin hefst strax eftir fréttir kl. 16.00 og lýkur ekki fyrr en kl. 18.00.
Loks má nefna að í bítið, upp úr klukkan átta, verða Ágúst Sigurðsson og Ólafur Arnalds frá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri í beinni frá Borgarnesi þar sem þeir ræða um gróðurhúsaáhrif og þessháttar.
Þeir sem ekki geta hlustað á Samfélagið í nærmynd kl. 11.00 er bent á að hægt er að nálgast þáttinn á heimasíðu RÚV (www.ruv.is) í hálfan mánuð eftir útsendingu. Það sama á við um þátt Síðdegisútvarpsins. Íbúar Borgarbyggðar eru að sjálfsögu hvattir til að mæta í Landnámssetrið og hlusta svo á Síðdegisútvarpið í rólegheitunum þegar færi gefst.

Share: