Aðgerðir í Borgarbyggð sem taka gildi á morgun, 5. október vegna Covid-19

október 4, 2020
Featured image for “Aðgerðir í Borgarbyggð sem taka gildi á morgun, 5. október vegna Covid-19”

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis að herða reglur samkomubannsins og taka þær reglur gildi á miðnætti aðfaranótt mánudagsins 5. október. Samtímis er lýst yfir neyðarstigi almannavarna.  

Takmörkun á fjölda einstaklinga sem koma saman miðast nú við 20 einstaklinga í stað 200 einstaklinga. Áætlað er að takmarkanirnar gildi í að minnsta kosti tvær – þrjár vikur.  

Eftirfarandi aðgerðir taka gildi frá og með morgundeginum 5. október: 

Skólahald í leik-, grunn- og tónlistaskóla 

 • Skólastarf í öllum leik-, grunn- og tónlistaskólum sveitarfélagsins helst óbreytt.  

 • Utanaðkomandi heimsóknir verða ekki leyfðar á meðan á þessum takmörkunum stendur nema í samráði við skólastjórnendur og starfsfólk.  

 • Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að leita upplýsinga hjá viðkomandi skólastjóra ef spurningar vakna. 

Frístund  

 • Starfsemi verður með hefðbundnum hætti.  

 • Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að leita upplýsinga hjá viðkomandi forstöðumanni ef spurningar vakna. 

Félagsmiðstöðin Óðal 

 • Starfsemi verður með hefðbundnum hætti. 

Íþróttamiðstöðvar  

 • Líkamsræktarsalurinn í Borgarnesi lokar. Staðan verður endurmetin þegar takmarkanir verða dregnar til baka. 

 • Hóptímar í íþróttahúsinu falla niður, það er; spinning, sundleikfimi, gigtarleikfimi, hádegispúl og morguntímar. 

 • Fjöldatakmarkanir verða í sundlaugum í Borgarnesi og á Kleppjárnsreykjum.  

Aldan 

 • Dósamóttakan og endurhæfing verður lokuð fyrir utanaðkomandi gesti. Önnur starfsemi helst óbreytt. 

 • Íbúar geta komið með dósir á mánudögum, þriðjudögum og fyrir hádegi á miðvikudögum – talið verður þremur dögum síðar.  

 • Eins verður hægt að koma með poka sem búið er að flokka og telja og fá þar með greitt samstundis. 

Félagsþjónusta aldraða 

 • Einungis 20 einstaklingar mega koma saman í einu. Notast skal við andlitsgrímur sé ekki hægt að tryggja eins metra fjarlægð milli aðila.  

Safnahúsið 

 • Starfsemi verður með hefðbundnum hætti en gætt verður að fjöldatakmörkunum sem miðast við 20 einstaklinga í senn. 

 • Starfsfólk munu gæta þess að sótthreinsa reglulega sameiginlega snerti fleti. 

Ráðhúsið 

 • Starfsemi verður með hefðbundnum hætti en íbúar og aðrir gestur eru beðnir um að hringja eða senda tölvupóst þurfi þeir að ná samband við starfsfólk. 

Aðrar stofnanir sveitarfélagsins munu loka fyrir utanaðkomandi gesti. 

Íbúar Borgarbyggðar sem og aðrir gestir eru beðnir um að lágmarka heimsóknir sínar í stofnanir sveitarfélagsins eins og kostur er. Mælst er til þess að nota þess í stað síma eða tölvupóst þurfi þeir á þjónustu eða upplýsingum að halda. Hér má sjá nánari upplýsingar um netföng starfsfólks og símanúmer í stofnunum sveitarfélagsins. 

Borgarbyggð vill minna íbúa á að öflugast vörnin við veirunni er að huga að einstaklingsbundnum smitvörnum. Mikilvægt er að þvo sér um hendurnar reglulega, spritta, halda eins metra fjarlægð og halda sig heima ef einkenni gera vart við sig. 

Það er einungis eitt virkt smit í Borgarbyggð sem stendur og því bersýnilegt að íbúar sveitarfélagsins eru að fara með gát. Höldum áfram á þessari braut og höfum það hugfast að við erum öll almannavarnir.

Ef það leikur grunur á smiti skal strax hafa samband við heilsugæsluna í gegnum síma, við netspjall Heilsuveru.is eða við Læknavaktina í síma 1700. Heilbrigðisstarfsfólk ráðleggur ykkur um næstu skref. 

Íbúar eru beðnir velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda. 

 


Share: