Næstkomandi föstudag 11. febrúar verður 112 dagurinn haldinn um land allt. Viðbragðsaðilar í Borgarfirði ætla að taka höndum saman og sýna bíla, tæki og fleira skemmtilegt á planinu við Hjálmaklett í Borgarnesi, frá kl. 14.00 á föstudag. Björgunarsveitir verða með leitarhesta, bíla og fleiri tæki sem þær og nota við sín störf.
Sjúkrabíllinn verður einnig á staðnum og þeir sem vilja geta fengið mældan blóðþrýsting og áhugasamir skoðað bílinn. Lögreglan verður með leitarhund og slökkviliðið kemur með bíla og leyfir þeim sem vilja að slökkva eld með eldvarnarteppi. Rauði krossinn mun sýna hvernig beita á hjartahnoði og blæstri og gestir og gangandi geta fengið að spreyta sig.
112 Dagurinn hefur verið haldinn árlega síðan 2005 og ber hann ávallt upp á 11. febrúar. Markmið dagsins er að kynna neyðarnúmerið 112 og starfsemi hinna fjölmörgu neyðarþjónustuaðila sem tengjast því, efla vitund almennings um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig þjónustan nýtist almenningi.
Viðbragðsaðilar hvetja alla til að koma og kynna sér starfsemina alla og sjá tækin sem verða á staðnum.