Nemendur með annað móðurmál en íslensku
Nemendur í grunnskóla sem hafa annað móðurmál en íslensku og hafa fasta búsetu hér á landi eiga rétt á sérstakri kennslu í íslensku. Viðmiðun samkvæmt reglugerð nr. 732/2011 gerir ráð fyrir tveimur kennslustundum á viku í sérstakri kennslu í íslensku á meðan nemandinn er að ná tökum á málinu. Móttaka erlendra nemenda og skipulag á sérstakri íslenskukennslu fellur undir starfssvið deildarstjóra. Málörvun tvítyngdra nemenda og nýrra Íslendinga í íslensku málumhverfi er ennfremur á ábyrgð allra í skólanum.
Bráðger börn
Þau börn sem skara fram úr á einu eða fleiri sviðum námslega fá tækifæri til þess að nota námsefni við hæfi og það getur verið annað námsefni en bekkjarfélagarnir eru með. Slíkt er metið sérstaklega fyrir hvern og einn og gert í samvinnu umsjónarkennara/faggreinakennara, foreldra, nemanda og sérkennara eftir atvikum. Nemendur í 10. bekk eiga þess kost að stunda nám í áföngum á framhaldsskólastigi nái þeir tilskyldum námsárangri í 9. bekk.
Langveik börn
Samkvæmt 23 gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir í grunnskóla 585/2010 á nemandi, sem að mati læknis getur ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda, rétt á sjúkrakennslu annaðhvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun. Kennslan getur að hluta til farið fram sem fjarkennsla eða dreifnám undir leiðsögn kennara og eftirliti foreldra eða starfsmanna sjúkrastofnana að höfðu samráði við grunnskóla viðkomandi nemanda. Ákvæði þetta tekur ekki til tilfallandi veikinda nemenda sem standa skemur en viku.
Nemandi á rétt á sjúkrakennslu um leið og hann, að mati læknis, getur lagt stund á nám og skal lengd daglegrar eða vikulegrar sjúkrakennslu miðast við ástand hans og þrek. Markmið sjúkrakennslu er að nemandi missi sem minnst af kennslu og verði ekki af tækifærum til náms vegna slyss eða langvarandi veikinda.
Skólastjóri ákveður í samráði við lækni og foreldra, umfang og nánara fyrirkomulag kennslunnar. Hann ber ábyrgð á því að viðeigandi sjúkrakennsla sé veitt. Hann ber ábyrgð á gerð einstaklingsnámskrár til lengri eða skemmri tíma þar sem tekið er mið af aðstæðum, veikindum og þörfum nemanda.
Nýta skal upplýsinga- og samskiptatækni eins og kostur er þegar sjúkrakennsla er skipulögð. Þá skal nemandi eiga þess kost að tengjast skólanum sínum og umsjónarhópi sem best eftir því sem aðstæður og ástand hans leyfa.
Um kostnað af sjúkrakennslu nemenda fer samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 og samnings sem gerður er á grundvelli þeirra.
Stuðningsfulltrúar
Stuðningsfulltrúar starfa undir verkstjórn umsjónarkennara en næsti yfirmaður stuðningsfulltrúa er deildarstjóri. Starf stuðningsfulltrúa miðar fyrst og fremst að því að auka færni og sjálfstæði nemenda sem þurfa sérstaka aðstoð. Fjöldi stuðningsfulltrúa er breytilegur milli ára og fer eftir þörf og fjárveitingu hverju sinni.
Þroskaþjálfar
Þroskaþjálfar sinna stuðningi og þjálfun nemenda með fötlun. Með þroskaþjálfun er á fræðilegan og skipulegan hátt stefnt að því að koma fötluðum til aukins alhliða þroska. Gengið er út frá því að allar manneskjur geti nýtt sér reynslu sína, lært og þroskast. Þroskaþjálfun felur m.a. í sér að gerðar eru markvissar þjálfunaráætlanir sem miða að því að auka hæfni einstaklinga til að takast á við athafnir daglegs lífs.
Þroskaþjálfi í grunnskóla gerir færni- og þroskamat og annast upplýsingaöflun og upplýsingagjöf vegna sérþarfa nemanda. Veitir kennurum og forráðamönnum nemenda ráðgjöf og leiðbeiningar er lúta að fötlun eða þroskafrávikum. Gerir áætlanir í vinnslu mála og fylgir þeim eftir. Hann sinnir þverfaglegu samstarfi innan og utan stofnunar vegna eftirfylgni mála og við skipulagningu verkefna.
Þroskaþjálfar við Grunnskólann í Borgarnesi eru Elísabet Ýr Bjarnadóttir, Sigríður Hrund Hálfdánardóttir og Fanney Þorkelsdóttir.