Skólareglur

Skólareglur gilda á skólatíma og í öllu starfi á vegum skólans, þar með talið í skólaferðalögum, í skólabílum, í tómstundaskóla, í mötuneyti, á bekkjarkvöldum, á diskótekum og í Íþróttamiðstöðinni á skólatíma. Skólareglurnar eru til endurskoðunar á þessu skólaári.

Samskipti

Starfsfólk skólans lætur sig varða samskipti nemenda og leggur sig fram um að líðan þeirra innan og utan skólans sé sem best. Brugðist verður við vandamálum eins og félagslegri einangrun og einelti (sbr. eineltisáætlun skólans) eins fljótt og vel og kostur er. Mestu skiptir að í skólanum mæti nemendur hlýju viðmóti ásamt festu og öryggi.

  • Allt starfsfólk lætur sig varða velferð nemenda og er þeim góð fyrirmynd.
  • Starfsfólk og nemendur virða skólareglur og ríkja skal gagnkvæm virðing í samskiptum.
  • Samskipti í skólanum grundvallast af kurteisi, gagnkvæmri virðingu og tillitsemi.
  • Við gætum þess að virða rétt annarra í námi, starfi og leik.

Ástundun

Skólinn hvetur starfsfólk og nemendur til að sýna jákvæðni og vinna öll sín störf af alúð (eins vel og þeir geta). Slík vinnubrögð leiða af sér ánægju, góðan starfsanda og góðan árangur. Verum stundvís. Leyfi og veikindi á að tilkynna eins fljótt og unnt er til ritara. Leyfi í einn til tvo daga skal sækja um til umsjónarkennara en lengri leyfi skal sækja um skriflega til skólastjórnenda. Hægt er að nálgast þar til gert eyðublað inni á heimasíðu skólans.

  • Mætum vel undirbúin hvern dag, skilum heimavinnu og verum með þau gögn sem nota á hverju sinni.
  • Mætingarreglur í eldri deild eru birtar á heimasíðu skólans.

Umgengni

Allir eru hvattir til að ganga vel um skólann sinn, eigur hans, nemenda og starfsfólks. Snyrtilegt og fallegt vinnuumhverfi eykur vellíðan allra.

  • Nemendum er ekki heimilt að yfirgefa skólalóðina á skólatíma nema með leyfi umsjónarkennara.
  • Við notum ekki línuskauta, reiðhjól, hlaupahjól eða hjólabretti á skólalóð á skólatíma nema að gefnu leyfi.
  • Notkun farsíma, leikjatölva eða annars sem veldur truflun í kennslustundum er ekki leyfð. Kennari getur leyft notkun tækja til að hlusta á tónlist, enda noti nemendur þá viðeigandi heyrnartól.
  • Við erum ábyrg fyrir því tjóni sem við kunnum að valda öðrum, hvort sem um er að ræða líkamstjón eða tjón á búnaði.

Heilbrigðar og hollar lífsvenjur

Skólinn hvetur nemendur og starfsfólk sitt til að ástunda heilbrigðar og hollar lífsvenjur. Ein af forsendum þess að okkur líði vel og við getum stundað störf okkar af ýtrustu kostgæfni er að við séum í góðu líkamlegu ástandi, séum útsofin og borðum hollan mat.

  • Ávaxtastund er í boði í nestistíma að morgni.
  • Taki nemendur með sér nesti, skal það vera hollt og næringarríkt. Neysla sælgætis og gosdrykkja er einungis leyfð til hátíðabrigða.
  • Notkun tóbaks og annarra vímuefna er stranglega bönnuð.

Reglur um skólasókn

Ástundun er notað sem samheiti yfir allar fjarvistir í skólastarfi, sem er skipt í tvær tegundir.
Það eru annars vegar reglur um fjarvistir, seinkomur og brottvikningar úr kennslustundum og
hins vegar um leyfi og veikindi.

Mætingar í skóla eru skráðar í Mentor. Foreldrar hafa aðgang að skráningum barna sinna og
ber að fylgjast með stundvísi þeirra. Kennari sendir yfirlit heim einu sinni í mánuði. Hver
nemandi í 1. – 10. bekk byrjar með skólasóknareinkunnina 10 í upphafi skólaárs. Óheimilar
fjarvistir og seinkomur koma til frádráttar upphaflegri einkunn, samkvæmt eftirfarandi
reglum:

  • Of seint (S) er skráð ef nemandi mætir eftir að kennsla er hafin. Þá lækkar
    mætingareinkunn um 0,25.
  • Óheimil fjarvist er skráð ef nemandi er fjarverandi án leyfis 1/3 úr kennslustund. Þá
    lækkar mætingareinkunn um 0,5.
  • Ef nemanda er vísað úr kennslustund lækkar mætingareinkunn um 0,5.
Viðbrögð við ófullnægjandi skólasókn.
  • Þrep 1 – einkunn 8,5. Umsjónarkennari ræðir við nemanda og hefur samband við
    foreldra/forsjáraðila. Ástæður fjarvista ræddar og mögulegar úrbætur.
  • Þrep 2 – einkunn 7,0. Umsjónarkennari boðar foreldra og nemanda á fund. Vandi
    greindur og leitað lausna. Deildarstjórar/skólastjórnendur skulu upplýstir um stöðuna.
  • Þrep 3 – einkunn 5,5. Umsjónarkennari boðar foreldra/forsjáraðila til fundar ásamt
    skólastjórnanda/fulltrúa hans. Gerðar frekari greiningar og tillögur um næstu skref.
    Lausnateymi skólans fengið að málinu.
  • Þrep 4 – einkunn 4,0. Mál tekið aftur upp í lausnarteymi metið hvort ástæða sé að vísa
    málinu áfram til nemendaverndar.
  • Þrep 5 – einkunn 2,0. Máli vísað til nemendaverndar og áfram til fjölskyldusviðs eða
    barnaverndar ef þörf er á. Eftirfylgni er þá samkvæmt Skólasóknarreglum
    Borgarbyggðar á hættustigi.

Umsjónarkennari fylgist með mætingareinkunn nemanda, er ábyrgðaraðili og fylgir málinu
eftir á öllum þrepum. Öll viðtöl skulu skráð, hverjir eru mættir, hvenær og helstu málsatvik
og gögnum komi fyrir í nemendamöppu.

Niðurfelling fjarvistarstiga ‒ Úrbótaleiðir

Nemandi getur sótt um hækkun á skólasóknareinkunn til umsjónarkennara/deildarstjóra með
þar til gerðum samningi. Ef mæting er óaðfinnanleg í tvær vikur getur nemandi unnið sér inn
hækkun um 1 í einkunn. Hægt er að endurnýja samninginn að tveimur vikum liðnum og
kemst nemandi hæst í 9,0 yfir skólaárið með þessu móti.
Reglur samþ. 3.janúar 2023 .

Um skólaferðalög

Vel skipulögð skólaferðalög og vettvangsferðir eru jákvæður og nauðsynlegur þáttur í skólastarfinu.Í öllum skólaferðalögum og vettvangsferðum gilda skólareglur og eiga nemendur að hlíta þeim. Nemandi sem ekki fer í vettvangsferð eða skólaferðalag skal mæta í skólann til annars skólastarfs. Heimilt er að vísa nemanda úr skólaferðalagi ef hann verður uppvís að því að brjóta reglur skólans. Við slíkar aðstæður skal senda hann heim á kostnað foreldra.

Verum sjálfum okkur til sóma í öllum ferðalögum.

Uppfært 11/2024