Tilgangurinn með samstarfi milli skólastiga er að skapa samfellu í námi barna, koma til móts við þarfir þeirra og stuðla að markvissari uppbyggingu náms. Mikilvægt er til að ná þessum markmiðum að treysta gagnkvæma þekkingu og skilning kennara á þessum tveimur skólastigum á starfi og starfsaðstæðum hvers annars. Markmiðið er að stuðla að vellíðan og öryggi barna og foreldra þegar börnin flytjast á milli skólastiga.
Til þess að ná þessu markmiði er mikilvægt að samræmi sé milli þess sem börn vinna með eða gera í leikskólanum og þess sem unnið er að í grunnskólanum; að kröfur og væntingar í sambandi við vinnubrögð, nám og samskipti séu rædd og mótuð og séu öllum kunn. Ekki er stefnt að því að allt eigi að vera eins á skólastigunum heldur að mismunurinn sé innan þeirra marka að hann valdi ekki óöryggi og kvíða hjá börnum og foreldrum þeirra.
Í Aðalnámskrám gunn- og leikskóla segir:
Ef flutningur barna úr leikskóla í grunnskóla á að vera farsæll þarf að undirbúa hann vel fyrir og eftir lok leikskólanáms. Leikskólabörn eiga að fá tækifæri til að kynnast umhverfi og starfi grunnskóla meðan þau eru enn í leikskóla og viðhalda góðum tengslum við leikskólann eftir að grunnskólanám hefst.
Á öðrum stað stendur:
Tengsl leikskóla og grunnskóla er samstarfsverkefni barna, foreldra, kennara og annars starfsfólks beggja skólastiga, þar sem barnið, velferð þess, þroski og menntun eru í brennidepli. Kennarar á báðum skólastigum eiga að kynna sér nám og starfsaðferðir hver annars, leita leiða til að móta samstarf og skapa samfellu í námi barna í því augnamiði að auka sjálfstraust barna og styðja við nám þeirra.
Samstarfsáætlun Grunnskólans í Borgarnesi, Klettaborgar og Uglukletts byggir á þessum áherslum. Til að efla samfelluna má nýta enn frekar þá hugmyndafræði sem liggur að baki einstaklingsmiðuðum starfsháttum. Í samstarfsáætluninni er gert ráð fyrir nemenda- og kennaraheimsóknum, stjórnendafundum, kynningarfundum og námskeiðum fyrir foreldra og námskeiðum fyrir starfsfólk skólanna. Áætlunin getur breyst á milli ára og er hægt að nálgast á heimasíðum skólanna þriggja og í starfsáætlun grunnskólans.
Meðal meginatriða nýrrar menntastefnu er aukið svigrúm, sveigjanleiki og samfella á milli skólastiga og innan hvers skólastigs. Helstu markmið samstarfs og tengsla milli skólastiga eru að skapa samfellu í námi nemenda, koma til móts við þarfir þeirra og stuðla að markvissari uppbyggingu námsins.
Skólinn á í góðu samstarfi við Menntaskóla Borgarfjarðar. Í samstarfinu felst m.a. ábyrgð á upplýsingagjöf milli skólanna, til nemenda og foreldra um nám á framhaldsskólastigi og hvernig samstarfinu er háttað. Á grunnskólagöngu sinni fá nemendur upplýsingar um framhaldsskólastigið í heild sinni og námsframboð einstakra skóla, einkum Menntaskóla Borgarfjarðar. Við skólann er starfandi náms- og starfsráðgjafi sem aðstoðar nemendur við að velja nám við hæfi. Sveitarfélög koma á samstarfi grunn- og framhaldsskóla.
Nemendum er heimilt að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi að loknu grunnskólanámi í viðkomandi námsgreinum. Námið er á ábyrgð grunnskólans og vitnisburður um það því birtur á vitnisburðarblaði nemandans við lok grunnskóla.
Varðandi nemendur sem hafa verið í sérdeild skólans eða notið sérúrræða í grunnskólanum, skulu kennarar og aðrir fagaðilar, ásamt nemanda og foreldrum hans, taka þátt í mótun og gerð tilfærsluáætlunar vegna fyrirhugaðs náms hans í framhaldsskóla og skal miða við að undirbúningur hennar hefjist í 9. bekk.
Áherslur í samstarfinu eru eftirfarandi:Stjórnendur skólanna funda reglulega með það að markmiði að efla upplýsingastreymi og samstarf á milli skólanna, s.s. með sameiginlegu námskeiðahaldi og fagfundum þvert á skólastigin.
Umsjónarkennarar nemenda í tíunda bekk, í samstarfi við náms- og starfsráðgjafa skólans kynna framhaldsskólastigið í heild sinni og námsframboð einstakra skóla, einkum Menntaskóla Borgarfjarðar.
Stjórnendur MB koma í Grunnskólann að kynna starf MB fyrir nemendum í tíunda (og níunda) bekk og foreldrum þeirra.
Stjórnendur MB koma í Grunnskólann til að kynna starfsemi skólans fyrir starfsfólki Grunnskólans.
Nemendum skólans er boðið að taka þátt í völdum þáttum í félagaslífi Menntaskólans.
Það er styrkur fyrir báða skólana að það er sami námsráðgjafi í skólunum.