Lestrarstefna Borgarbyggðar var unnin af stýrihópi úr leik- og grunnskólum Borgarbyggðar árið 2017. Stefnuna má lesa í heild á heimasíðu skólanna og sveitarfélagsins. Í bæklingunum sem hér er að finna á undirsíðum, og eru einkum ætlaðir foreldrum, má lesa stutta samantekt á því helsta er varðar lestur og lestrarnám í hverjum árgangi fyrir sig. Einnig er að finna á undirsíðu leiðir fyrir foreldra til að styðja og aðstoða barnið við lestrarnámið.
Traust kunnátta í móðurmáli er meginundirstaða staðgóðrar menntunar. Jafnframt er lestur öflugt tæki nemenda til að afla sér þekkingar og tjáning í ræðu og riti ein af nauðsynlegum forsendum þátttöku í samfélaginu. (Aðalnámskrá grunnskóla, bls. 97)
Lestur krefst víðtækrar málfærni og þekkingar á tungumálinu. Börn verða að vera fær um að skilja merkingu orða, samhengi í texta og að draga ályktanir út frá lestextanum. Þetta reynir mikið á orðaforða, málfræðiþekkingu, málskilning og hæfni til að nota málið í mismunandi samhengi. Börnum með slaka málfærni er hætt við að lenda í erfiðleikum með lesskilning, jafnvel þótt þau geti umskráð bókstafina í hljóð og orð.
Þjálfaður lestur byggist á því að lesandinn nái góðum tökum á þrenns konar færni :
• Hann þarf að eiga auðvelt með að greina hið flókna samspil bókstafa og hljóða til að geta umskráð orðin sem síðan festast
smám saman í sjónrænu orðasafni hugans og því fyrr sem þau eru oftar lesin.
• Hann þarf að hafa góðan málskilning og góðan orðaforða til þess að skilja merkingu textans.
• Hann þarf að hafa góða lesfimi, geta lesið hratt og fyrirhafnarlaust til að geta beint athyglinni að innihaldi lestextans.
Góðir lesarar njóta þess gjarnan að lesa og lesturinn veitir þeim ánægju.
http://lesvefurinn.hi.is/hvad_er_lestur
Besti tíminn fyrir barnið til að læra að lesa og skrifa er á unga aldri. Þá er það móttækilegast fyrir jákvæðum viðhorfum til lestrar og ritunar og næmast fyrir þeim undirstöðuþáttum sem nám í lestri og ritun byggir á.
Markmiðið með lestrarþjálfun er að byggja upp lestrarfærni sem nýtist til náms og auki sjálfstraust nemenda í námi og starfi. Stefnan er að allir nemendur nái eins góðum árangri og þeir hafa forsendur til í lestri og að lestrarkennslan verði öllum nemendum gott veganesti þegar þeir ljúka skólagöngu sinni í Grunnskólanum í Borgarnesi.
Foreldrar eru mikilvægir þátttakendur í námi barna sinna. Sem foreldri getur þú haft mikil áhrif á hvernig barninu þínu farnast í námi þar sem þú býrð yfir einstakri reynslu sem getur hjálpað því að læra. Sýnt hefur verið fram á að stuðningur foreldra í lestrarnámi skiptir miklu máli.