Gæðamál

Innra mat

„Í 36. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 er kveðið á um að hver grunnskóli skuli meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs. Sveitarfélög eiga að fylgja innra matinu eftir þannig að það leiði til umbóta í skólastarfi skv. 37. gr. laganna.
Markmið mats og eftirlits með skólastarfi, og þar með markmið innra mats, er að tryggja að starfsemi grunnskóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá grunnskóla. Innra mati er ætlað að auka gæði skólastarfsins og stuðla að umbótum, tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögunum. Innra matinu er einnig ætlað að veita aðilum skólasamfélagsins og fræðsluyfirvöldum upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun.
Í drögum að aðalnámskrá grunnskóla (2011) segir að skólanefnd beri ábyrgð á því að grunnskólinn meti innra starf sitt með markvissum hætti. Þar er einnig kveðið á um mikilvægi þess að skólanefnd fylgi því eftir að niðurstöður innra mats stuðli að auknum gæðum og bættum árangri í öllu starfi skólans. Skólanefnd ber ennfremur ábyrgð á að framkvæmt sé ytra mat á skólum sem byggir á margs konar upplýsingum og þar með talið upplýsingum um innra mat skólans.“

Í Grunnskólanum í Borgarnesi er innra matið í umsjón sérstaks stýrihóps sem skólastjóri leiðir. Unnið er eftir sjálfsmatsáætlun sem byggir á því sjálfsmatskerfinu „How good is our school“, skosku kerfi sem innleitt hefur verið af grunnskólum í Skagafirði undanfarinn áratug og nefnist Gæðagreinir á íslensku. Ennfremur er stuðst við kannanir sem gerðar eru reglulega af Skólapúlsinum en Samband ísl. sveitarfélaga hefur gert samning við það fyrirtæki um að annast þennan þátt matsins er lítur að viðhorfakönnunum nemenda, starfsfólks og foreldra. Ennfremur eru teknar inn í matið niðurstöður úr eineltiskönnun og árangur samræmdra prófa. Sjálfsmatsskýrsla með umbótaáætlun liggur fyrir eftir að skóla lýkur að vori.

Uppfært 08/2016