Starfsfólk Gunnskólans í Borgarnesi leggur áherslu á í öllu sínu starfi með nemendum að efla þá sem einstaklinga, gera þá hæfa til að vinna með öðrum til að taka þátt í lýðræðisþjóðfélagi sem stöðugt er að taka breytingum. Við leggjum jafna áherslu á siðvit, verksvit og bókvit nemenda. Við viljum sjá ábyrga einstaklinga, sem bera virðingu jafnt fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu, sem láta sér annt hver um annan, geta unnið með öðrum, hafa dug til að standast þrýsting neikvæðra áhrifa og bera virðingu fyrir mismunandi sjónarmiðum og einstaklingsmun.
Til að við náum þessum meginmarkmiðum okkar þá leggjum við áherslu á, í samvinnu við forráðamenn, að:
- Efla sjálfsvirðingu / sjálfstraust og vellíðan nemenda þannig að þeir öðlist jákvæða sjálfsmynd. Að þessu er unnið m.a. með því að veita þeim jákvæða hvatningu og uppbyggjandi gagnrýni. Í skólanum er lögð áhersla á að hlusta eftir röddum nemenda.
- Efla hæfni nemenda til að vinna með öðrum, m.a. með því að þeir taki að sér fjölbreytt hlutverk í hópstarfi, leysi ágreiningsefni og skipuleggi samstarf sitt.
- Efla áhuga, iðni metnað og sköpunarkraft nemenda. Í því felst að kennarar og nemendur velja viðfangsefni sem auka ábyrgð, sjálfstæði og frumkvæði nemenda bæði í verkefnavali og vinnubrögðum. Nemendur tileinka sér skipuleg og vönduð vinnubrögð.
- Nemendur læri að bera ábyrgð og virðingu gagnvart sjálfum sér, öðrum einstaklingum og umhverfi sínu. Meðal leiða má nefna markvissa kennslu í lífsleikni frá upphafi skólagöngu í því skyni að auka félagslega færni þeirra.
- Efla kristilegt siðgæði, viðsýni, umburðarlyndi og tillitssemi. Sem dæmi um leið má nefna að nemendur læra að virða skoðanir hagsmuni og sjónarmið annarra.
Einkunnarorð / gildi skólans:
Sjálfstæði – ábyrgð – virðing – samhugur
Með sjálfstæði við sýnum þann
samhug milli vina
er virðinguna velja kann
og vekur ábyrgðina.