Mat á hæfni og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi, órjúfanlegur frá námi og kennslu. Megintilgangur námsmats er að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess. Með námsmati er fylgst með því hvernig nemendum tekst að ná almennum hæfniviðmiðum aðalnámskrár, stuðlað að námshvatningu, nemendur örvaðir til framfara og metið hverjir þurfa á sérstakri aðstoð að halda. (Námsmat í grunnskóla)
Námsmat í Grunnskólanum í Borgarnesi
Í öllum námsgreinum meta kennarar framvindu námsins og hæfni nemenda jafnóðum yfir skólaárið og gefa þeim nemendum sem hafa ekki náð ákveðinni hæfni tækifæri til að bæta sig. Námsmat er bæði leiðsagnarmat og lokamat. Í leiðsagnarmati eru markmiðin og hæfnin sem stefnt er að nemendum ljós. Þá þarf endurgjöfin að veita þeim leiðsögn um hvernig þeir geta bætt hæfni sína. Lokamat segir til um hæfni nemenda við lok skólaárs eða við útskrift úr grunnskóla og er frammistaða nemandans þá dregin saman í eina einkunn í hverju fagi. Leitast er við að byggja námsmatið í skólanum sem mest á leiðsagnarmati, sem metur fjölbreytta hæfni nemenda á lengri tíma. Kennarar meta og skrá hæfni nemenda í Mentor jafnt og þétt yfir skólaárið, nemendum og foreldrum til upplýsinga um það sem nemendur geta og kunna á hverjum tíma. Niðurstöður námsmats birtast nemendum þar í gegnum hæfniviðmið og matsviðmið og geta foreldrar og nemendur nálgast hæfnikort nemenda og séð yfirlit yfir hvar nemandinn er staddur í hverri grein, hvaða viðmiðum hann hefur náð og hvar hann þarfnast frekari þjálfunar ef það á við. Stöðumat fer síðan fram 2 sinnum á skólaárinu með viðtali nemanda og foreldra með umsjónarkennara. Tilgangur stöðumatsins er að veita mat á stöðu nemenda til þeirra sjálfra og aðstandenda þeirra, til að hjálpa þeim til að ná frekari árangri í náminu og stuðla að góðri líðan þeirra.
Markmið
Markmið náms skal jafnan vera hæfni nemenda. Lýsingar á markmiðum náms heita nú hæfniviðmið og beinast að því sem nemandinn á að geta gert við lok námstíma/ námslotu. Námsmat skal miðast við fyrirfram skilgreind hæfniviðmið. Á heimasíðu skólans er að finna bekkjarnámskrár hvers námshóps þar sem fram koma markmið vetrarins. Þar koma fram hæfniviðmið sem þjálfuð eru í námsgrein, kennsluaðferðir og námsmat auk upplýsinga um námsgögn, tímafjölda í hverri grein og nafn kennara. Hæfniviðmiðin eru sá grundvöllur sem kennsluhættir og námsmat byggjast á. Kjarninn í nálgun Grunnskólans í Borgarnesi hefur verið að sundurliða hæfniviðmið og matsviðmið Aðalnámskrár og búa til úr þeim hæfnilýsingar fyrir hvern árgang sem nemendur eiga auðvelt með að skilja og vinna að. Við köllum þetta Borgarnes hæfniviðmið/námskrár. Þegar kennari skilar verkefnum/prófum til baka til nemandans kemur niðurstaðan ekki sem ein einkunn, heldur sem endurgjöf á Borgarnes-hæfniviðmiðin. Gefið er með bókstöfunum A,B+,B,C+,C og D. Í sumum tilfellum líkt og í valáföngum er einungis metið lokið/ólokið. Nánar má kynna sér námsmat í skólanámskrá Grunnskólans í Borgarnesi.
Lykilhæfni
Lykilhæfni leggur mat á hæfni nemenda sem byggist á grunnþáttum í menntun og áhersluþáttum grunnskólalaga og er sameiginleg öllum námssviðum. Lykilhæfni skal metin jafnhliða öðru námsmati með matskvarðanum A – D og eru viðmið mismunandi eftir aldri. Mat á lykilhæfni er skráð í Mentor.