Kynning nemenda á Grunnskóla Borgarfjarðar (myndband)
Skýrsla Réttindaráðs Grunnskóla Borgarfjarðar (myndband)
Grunnskóli Borgarfjarðar hóf innleiðingaferli Réttindaskóla 2021 og stefnir á viðurkenningu vorið 2024. Deildirnar þrjár sem tilheyra Grunnskóla Borgarfjarðar eru samstíga og vinna að þessu verkefni saman. Á öllum deildum eru réttindaráð sem í starfa nemendur úr öllum bekkjardeildum.
Réttindaskólar byggja starf sitt á Barnasáttmálanum en hann felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu.
Réttindaskólar eru alþjóðlegt vottunarverkefni sem hefur borið mikinn árangur meðal annars í Bretlandi, Kanada og Norðurlöndum. Verkefnið felst í að fræða börn um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tekur á öllum þeim réttindum sem börn öðlast við fæðingu og hafa til átján ára aldurs.
Réttindaskólaverkefnið skapar ramma utan um þau markmið sem koma fram í aðalnámskrá grunnskóla, grunnskólalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, jafnrétti og lýðræði. Eitt af meginhlutverkum grunnskólans í samvinnu við heimilin er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Markmiðið er að byggja upp lýðræðislegt námsumhverfi, auka þekkingu á mannréttindum og stuðla að gagnkvæmri virðingu innan skólasamfélagsins.
Þátttökuskólar leggja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til grundvallar öllu starfi sínu.
Heimasíða Réttindaskóla UNICEF