Valgreinar eru hluti af skyldunámi og í 8.-10. bekk grunnskóla skal nemendum gefinn kostur á að velja námsgreinar og námssvið sem svarar til allt að fimmtungi námstímans en skólar geta skipulagt mismunandi hlutfall valgreina eftir árgöngum. Tilgangurinn með valfrelsi nemenda á unglingastigi er að hægt sé að laga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námið miðað við áhugasvið og framtíðaráform, í samvinnu við foreldra, kennara og námsráðgjafa.
Framboð valgreina er mismunandi á ári hverju. Nemendur velja þær greinar sem þeir hafa mestan áhuga á og síðan aðrar greinar til vara. Því miður er ekki hægt að verað við óskum allra en takmarkaður fjöldi kemst í hvern hóp. Mjög mikilvægt er að val nemenda sé vel ígrundað svo ekki þurfi að gera breytingar eftir að búið er að velja.
Valgreinar eru kenndar þrisvar sinnum í viku. Sú breyting á sér stað í vetur (2023-2024) að á Varmalandi eru 5.-7. bekkur einnig með í valinu þrisvar sinnum í viku og á Kleppjárnsreykjum eru 5.-7. bekkur með einu sinni í viku. Síðan eru nemendur í 5. – 10. bekk saman í áhugasviðsvali einu sinni í viku.
Í áhugasviðsvali velja nemendur sér verkefni eftir áhugasviði þeirra. Þeir setja sér markmið og ákveða hvernig þeir ætla að vinna verkefnið, á hve löngum tíma og með hvaða hætti þeir munu skila því af sér. Verkefnin geta verið unnin einstaklingslega eða í hópum.
Markmiðið með áhugasviðsvali er að reyna að koma til móts við hvern og einn nemanda þar sem hann vinnur út frá eigin styrkleikum. Auka ábyrgð hans á eigin námi og þjálfa hann í upplýsingaöflun og sjálfstæðum vinnubrögðum.
Matið á verkefninu felst í sjálfsmati nemandans og virknimati kennara.