Haustið 2010 hóf Grunnskóli Borgarfjarðar göngu sína sem sameinaður skóli í uppsveitum Borgarfjarðar. Markmið sameiningarinnar var að uppsveitarskólarnir störfuðu eftir sömu stefnu, gildum og áherslum. Vel var staðið að sameiningunni. Allir starfsmenn skólanna, ásamt fulltrúum fræðsluyfirvalda í Borgarbyggð, fulltrúum foreldra og nemenda tóku þátt í stefnumótunarvinnu í ágúst fyrir skólabyrjun.
Stjórnun skólans var með þeim hætti að á hverri deild var deildarstjóri og einn skólastjóri var yfir öllum deildum. Saman mynduðu þeir stjórnunarteymi skólans. Hefur þetta stjórnunarform haldist óbreytt síðan.
Þær skólastofnanir sem sameinaðar voru, voru Varmalandsskóli í Stafholtstungum sem hafði starfað frá árinu 1955 og Grunnskóli Borgarfjarðar sem áður var Andakílsskóli á Hvanneyri en hann hafði starfað frá árinu 1975 og Kleppjárnsreykjaskóli sem stofnaður var 1961. Þeir tveir skólar voru fyrst sameinaðir árið 2005 undir nafni Grunnskóli Borgarfjarðarsveitar. Í nóvember 2008 lagði fræðslunefnd Borgarbyggðar til við sveitarstjórn að breyta nafni Grunnskóla Borgarfjarðarsveitar í Grunnskóli Borgarfjarðar, það var gert og starfaði hann undir því nafni til 2010, þar til skólarnir tveir voru sameinaðir og ákveðið að nafn nýja skólans yrði Grunnskóli Borgarfjarðar.
Grunnskóli Borgarfjarðar er þriggja deilda grunnskóli á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. Oftast eru 190 – 200 nemendur í skólanum á hverju starfsári. Í Hvanneyrardeild eru nemendur í 1.-5. bekk og koma flestir af Hvanneyrarsvæðinu og Skorradal. Á Kleppjárnsreykjum er 1.-10. bekkur og koma nemendur úr Skorradal, Bæjarsveit, Lundarreykjadal, Flókadal, Reykholtsdal, Hálsasveit og Hvítársíðu. Haustið 2024 var bekkjardeildum á Varmalandi fækkað ásamt því að breyta hluta húsnæðis í leikskólahúsnæði fyrir leikskólann Hraunborg. Á Varmalandi eru 1.- 4. bekkur og koma nemendur úr Stafholtstungum, Þverárhlíð og Norðurárdal. Upptökusvæði skólans er mjög víðfemt og skólaakstursleiðir eru 11. Ávalt er reynt að ganga út frá því að nemendur þurfi ekki að vera lengur en 55 mínútur á leið í skólann með skólabíl. Einungis er ein heimferð á dag með skólabílum, því er yngstu nemendum skólans boðið upp á frístund og tómstundastarf þegar þeir hafa lokið lögbundnum kennslustundafjölda.
Allar deildir skólans búa við þann kost að vera vel í sveit settar hvað verðar náttúrufegurð og möguleika til að stunda útikennslu og umhverfismennt. Útikennslusvæði hefur verið komið upp á hverjum stað fyrir sig og nýtist það vel til að auðga nám og kennslu. Borgarfjarðarhérað á sér ríka arfleið í sögu og menningu og í framtíðarsýn skólans er það meðal annars tiltekið að skólinn sé sterkur á sviði i lýðheilsu, lífsleikni, list-og verkgreina, með tengingu við náttúru, arfleið, menningu og sögu heimasvæðis.
Skólinn eykur fjölbreytni sína í gengum þessar þrjár starfsstöðvar sem standa saman og vinna að því að ná stöðugt betri árangri.