Einkunnadagurinn 2021

ágúst 13, 2021
Featured image for “Einkunnadagurinn 2021”

Fólkvangurinn Einkunnir er útivistarparadís sem íbúar Borgarbyggðar, sem og gestir í héraði, nýta sér í vaxandi mæli. Einkunnir fá víðast hvar góða einkunn en lengi má gott bæta.
Fólkvangurinn í Einkunnum hefur ekki úr miklum fjármunum að spila til framkvæmda og viðhalds en hinsvegar hafa margir lýst yfir vilja til að leggja fram hjálparhönd til að fegra enn frekar þennan fagra reit og bæta aðstöðuna. Upp úr því spratt sú hugmynd að efna til Einkunnadags þar sem vinnufúsar hendur kæmu saman og gerðu það sem gera þarf, eða allavega brot af því!
Nú hafa umsjónarnefnd Fólkvangsins í Einkunnum, Skógræktarfélag Borgarfjarðar og Ferðafélag Borgarfjarðarhéraðs tekið höndum saman og ætla að blása til Einkunnadagsins 2021. Hann verður laugardaginn 21. ágúst frá kl. 10.00. Allir sem áhuga hafa á að leggja verkefninu lið eru boðnir hjartanlega velkomnir! Helstu verkefni dagsins verða að endurstika gönguleiðina frá Einkunnum að Borg og gera hana greiðfærari með því að klippa greinar ofl. Þá er ætlunin að bera kurl í stíga í Einkunnum, snyrta skógarrjóður, rétta við og skipta út stikum á gönguleiðum innan Einkunna og fleira eftir því sem tími vinnst til.
Við ætlum að hefjast handa kl. 10.00 um moguninn en þeir sem vilja mæta síðar eru jafn velkomnir þá. Boðið verður upp á létta hádegishressingu fyrir þátttakendur í Einkunnadeginum. Munum að margar hendur vinna létt verk, já og vonandi mörg verk!

Með fyrirfram þökk!
Umsjónarnefnd Fólkvangsins í Eiknunnum
Skógræktarfélag Borgarfjarðar
Ferðafélag Borgarfjarðarhéraðs

 

 


Share: