Zsuzsanna hlýtur heiðursviðurkenningu

apríl 3, 2008
Í gær var ungverska píanóleikaranum Zsuzsönnu Budai veitt heiðursviðurkenning Menningarsjóðs Borgarbyggðar fyrir árið 2008. Það var formaður Menningarsjóðs, Jónína Erna Arnardóttir, sem afhenti Zsuzsönnu viðurkenninguna, sem var í formi heiðursskjals og veglegrar peningaupphæðar.
Afhendingin fór fram í sal Tónlistarskóla Borgarfjarðar við Borgarbraut í Borgarnesi.
Zsuzsanna Budai hefur auðgað borgfirskt tónlistarlíf með hæfileikum sínum, þekkingu og dugnaði í allmörg ár. Hún fæddist í Ungverjalandi og lauk tónlistarnámi frá Liszt Ferenc Akademi í Búdapest árið 1988. Hún kenndi við tónlistarskóla í Búdapest til ársins 1991 en það ár flutti hún til Íslands. Hún var fyrst á Ísafirði en flutti í Borgarnes árið 1997.
Zsuzsanna hefur víða komið fram sem einleikari og meðleikari og er organisti við nokkrar kirkjur á Vesturlandi. Hún stjórnar kvennakórnum Freyjunum og Samkór Mýramanna og kennir á píanó auk tónfræðigreina og er meðleikari söngnemenda við Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Zsuzsanna er afar hæfileikaríkur píanóleikari sem hefur fært andrúmsloft ríkrar tónlistarmenningar Mið-Evrópu með sér til Íslands, bæði með leik sínum og kennslu.
Meðfylgjandi mynd tók Helgi Helgason.
 
 

Share: